Skipun forstjóra nýrrar Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða
Þröstur Óskarsson verður forstjóri nýrrar Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða sem tekur til starfa 1. október næstkomandi samkvæmt ákvörðun Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra. Skipunin byggist á mati lögbundinnar nefndar sem mat hæfni umsækjenda.
Fjórir sóttu um embættið, þrír þeirra voru metnir jafnhæfir og var Þröstur valinn úr hópi þeirra. Þröstur var skipaður forstjóri heilbrigðisstofnunarinnar á Ísafirði árið 2001, rak um tíma einnig heilbrigðisstofnunina Bolungarvík og frá árinu 2009 hefur hann verið forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.
Í umsögn hæfnisnefndar kemur fram að Þröstur uppfylli vel skilyrði auglýsingar um menntun og starfsreynslu. Bent er á að hann hafi reynslu af sameiningum stofnana þegar Heilbrigðisstofnunin á Bolungarvík varð hluti af Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Þröstur hefur aukið við menntun sína samhliða starfi og lauk M.Sc. gráðu frá Háskólanum á Akureyri árið 2011.
Ný Heilbrigðisstofnun Vestfjarða verður til við sameiningu heilbriðgisstofnananna á Patreksfirði og í Ísafjarðarbæ.