Hoppa yfir valmynd
10. september 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Forvarnir gegn sjálfsvígum

Hugsi
Hugsi

Alþjóðadagur forvarna gegn sjálfsvígum er í dag, 10. september. Af því tilefni var efnt til málþings í Iðnó í dag undir yfirskriftinni; Rjúfum þagnarmúrinn og kyrrðarstundir verða haldnar í Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum í kvöld kl. 20.00 í minningu þeirra sem fallið hafa fyrir eigin hendi.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra var meðal ræðumanna á málþinginu í Iðnó í dag. Hann færði þakkir öllum þeim sem láta sig málið varða og sagði meðal annars: „Við megum ekki láta þá staðreynd að fólk svipti sig lífi liggja í þagnargildi. Við eigum að ræða þessi mál, við eigum að minnast þeirra sem þannig hafa horfið frá okkur, við eigum sem samfélag að muna eftir ábyrgð okkar, gagnvart þeim sem svona látast, gagnvart aðstandendum þeirra og gagnvart þeim sem kunna að vera í hættu á að taka eigið líf. Það er hægt að hjálpa – og það er hægt að sporna við sjálfsvígum með forvörnum.“

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) birti fyrir nokkrum dögum fyrstu skýrslu sína um forvarnir gegn sjálfsvígum ásamt tölulegum upplýsingum um tíðni sjálfsvíga meðal einstakra þjóða. Skýrslan er ákall og hvatning til þjóða heims um að gefa sjálfsvígum og sjálfsvígstilraunum meiri gaum í umfjöllun um lýðheilsumál, að auka vægi forvarna og síðast en ekki síst er hvatt til þess að heilbrigðisyfirvöld marki forvarnarstefnu – eða styrki slíka stefnu sé hún fyrir hendi, með alhliða og þverfaglegri nálgun.

Geðheilbrigðisstefna í mótun

Kristján Þór segir skýrslu WHO koma á góðum tíma þar sem hann hafi snemma í sumar hrint af stað vinnu við gerð geðheilbrigðisstefnu þar sem sjónum verður meðal annars beint að sjálfsvígsforvörnum. Skýrslan muni gagnast vel í því starfi og einnig við gerð tillögu til þingsályktunar um heilbrigðisáætlun til ársins 2020 sem hann mun leggja fyrir Alþingi í vetur.

Ráðherra lagði áherslu á að byggt beri á þeirri reynslu og þekkingu sem er fyrir hendi hjá fagfólki, aðstandendum og félagasamtökum og horfa til annarra þjóða sem lengra eru komnar í forvarnarstarfi og stefnumótun í þessum efnum: „Áhættuþættir sjálfsvíga og sjálfsvígstilrauna eru ýmsir vel þekktir og þá vitneskju eigum við að nýta í forvarnarvinnunni.“

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta