Hoppa yfir valmynd
10. september 2014 Utanríkisráðuneytið

Fundur utanríkisráðherra og yfirhershöfðingja Atlantshafsbandalagsins

Gunnar Bragi Sveinsson og Philip M. Breedlove

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Philip M. Breedlove, yfirhershöfðingi Atlantshafsbandalagsins, funduðu í dag í Ráðherrabústaðnum. Á fundinum var fjallað um niðurstöður leiðtogafundar bandalagsins sem fram fór í Wales í síðustu viku og þátttöku Íslands á vettvangi þess.

Utanríkisráðherra segir mikilvægt að yfirhershöfðingi bandalagsins heimsæki Ísland reglulega til að kynnast aðstæðum hér á landi og eiga samráð við hérlend stjórnvöld. Á fundinum var rætt um reglubundna loftrýmisgæslu bandalagsins á Íslandi, tækifæri til æfinga og rekstur íslenska loftvarnarkerfisins, sem er mikilvægur þáttur í framlagi Íslands til sameiginlegra varna bandalagsríkja.

„Ég ítrekaði þá skoðun íslenskra stjórnvalda að Atlantshafsbandalagið þurfi að hafa á að skipa getu til að fylgjast með þróun mála á norðurslóðum. Breytingar á norðurslóðum fela í sér aukna umferð sem varðar ekki eingöngu öryggi og varnir heldur einnig umhverfisvá og leit og björgun. Að okkar mati er brýnt að huga einnig að þessum þætti samstarfsins innan bandalagsins“ segir Gunnar Bragi.

Utanríkisráðherra kynnti þau skref sem íslensk stjórnvöld hyggjast taka í framhaldi leiðtogafundarins sem meðal annars felast í auknum gistiríkisstuðningi vegna loftrýmisgæslu, starfa borgaralegra sérfræðinga á vettvangi bandalagsins og áframhaldandi framlag til verkefna þess um konur, frið og öryggi. Þá var fjallað um áhrif átakanna í Úkraínu á öryggishorfur í Evrópu og um vefógnir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta