Afganskt flóttafólk boðið velkomið til Hafnarfjarðar
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Haraldur Líndal Haraldsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, undirrituðu í dag samning um móttöku, aðstoð og stuðning við sex manna fjölskyldu frá Afganistan sem hingað er komin á grundvelli ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um móttöku flóttafólks.
Ákvörðun ríkisstjórnarinnar miðaðist við að tekið skyldi á móti konum í hættu frá Afganistan. Flóttamannanefnd í samvinnu við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna gerði tillögu um einstaklinga sem tekið skyldi á móti og var sú tillaga samþykkt í ríkisstjórn. Flóttamannanefnd var falið að undirbúa móttöku fólksins og var leitað til Hafnarfjarðar um möguleika og vilja bæjarfélagsins til þess að taka að sér verkefni sem þetta.
Samningurinn sem undirritaður var í dag fjallar um helstu verkefni sem móttaka flóttafólks felur í sér og bæjarfélagið mun sjá til að fólkið fái notið. Þessi verkefni varða einkum ýmsa félagslega þjónustu, stuðning og aðstoð en lúta einnig að heilbrigðisþjónustu, grunnskólamenntun og annarri þjónustu sem íbúar sveitarfélaga njóta almennt. Rauði krossinn á Íslandi gegnir einnig hlutverki í móttöku og aðlögun flóttafólks samkvæmt viðmiðunarreglum flóttamannanefndar og verður samningur um aðkomu hans að stuðningi við fjölskylduna í Hafnarfirði undirritaður innan skamms.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segist afar þakklát Hafnfirðingum fyrir að hafa brugðist vel við ósk um móttöku afgönsku fjölskyldunnar: „Ástandið í Afganistan er skelfilegt og neyð flóttafólksins eftir því. Það er mikilvægt fyrir Íslendinga sem þjóð að leggja sitt af mörkum til hjálpar og móttaka flóttafólks er liður í því.“
„Við höfum átt góða samvinnu við alla sem hafa komið að þessu máli og við munum leggja okkur fram við að fjölskyldunni líði sem allra best í Hafnarfirði. Fyrir hönd bæjarins býð ég þau hjartanlega velkomin“ sagði Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri við undirritun samningsins í dag.