Hoppa yfir valmynd
12. september 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Fjárlagafrumvarpið: Efling heilsugæslu forgangsmál

Heilsugæslan - Miðstöð heilsuverndar
Heilsugæslan - Miðstöð heilsuverndar

Alls renna um 143 milljarðar króna til heilbrigðismála árið 2015 samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Aukingin nemur um 5,3 milljörðum króna, eða um 3,9%. Efling heilsugæslu er forgangsmál og er gert ráð fyrir rúmlega 600 milljóna króna raunaukningu á framlagi til heilsugæslu og sjúkraflutninga.

Aukið fé til heilsugæslu felur meðal annars í sér verkefni eins og fjölgun á sérnámsstöðum í heimilislækningum og heilsugæsluhjúkrun, verkefni um miðlæga símsvörun heilbrigðisþjónustu, innleiðingu þjónustustýringar í heilbrigðiskerfinu og eflingu heimahjúkrunar til að mæta þörfum þeirra sem bíða eftir dvöl á hjúkrunarheimilum.

Uppbygging rafrænnar sjúkraskrár

Embætti landlæknis ber ábyrgð á uppbyggingu samtengdrar rafrænnar sjúkraskrár á landsvísu. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir þetta verkefni eitt þeirra mikilvægustu sem unnið er að til að auka gæði og skilvirikni á öllum sviðum heilbrigðisþjónustunnar: „Þetta er eitt þeirra verkefna sem unnið er að undir formekjum Betri heilbrigðisþjónustu, samhliða eflingu heilsugæslunnar. Í  frumvarpinu gert ráð fyrir að framlög til uppbyggingar rafænnar sjúkraskrár verði aukin um 80 milljónir króna á næsta ári.“

Rekstur sjúkrahúsanna varinn

Ráðherra segir aukna fjármuni til heilsugæslunnar skipta mjög miklu máli en jafnframt leggi hann sem fyrr áherslu á að standa vörð um stóru sjúkrahúsin. Styrking á rekstrargrunni í fjárlögum þessa árs er varinn og raunaukning útgjalda til málaflokksins nemur 302 milljónum. Fé til tækjakaupa á LSH verður 1.445,6 milljónir og SAK 189,9 milljónir í samræmi við áætlun stjórnvalda sem samþykkt var á liðnu ári. Í tengslum við áform um uppbyggingu á lóð Landspítala er gert ráð fyrir 70 milljóna króna framlagi vegna útboðs og hönnunar sjúkrahótels. Þá eru uppi áform um að bjóða þjónustu sjúkrahótels á Akureyri auk þess að styrkja starfsemi sjúkraflutningaskólans sem þar er staðsettur.

Hjúkrunarrými á landsbyggðinni

Í fjárlögum þessa árs voru veittar 200 milljónir króna í tímabundið framlag til að bregðast við brýnum vanda vegna skorts á hjúkrunarrýmum á landsbyggðinni. Í fjárlagafrumvarpi ársins 2015 er lagt til að þetta tímabundna framlag verði gert varanlegt.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta