Hoppa yfir valmynd
15. september 2014 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Innanríkisráðherra leggur til að fjarskiptasjóður styrki hringtengingu ljósleiðara á Vestfjörðum

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra var til andsvara við sérstaka umræðu á Alþingi í gær þegar staða og öryggi í fjarskiptum á landsbyggðinni og uppbygging háhraðatenginga í dreifbýli var til umfjöllunar. Lilja Rafney Magnúsdóttir alþingismaður var málshefjandi. Ráðherra kvaðst hafa lagt til við fjarskiptasjóð að styrkja lagningu ljósleiðara milli Súðavíkur og Brúar í Hrútafirði og myndi slík hringtenging bæta mjög rekstraröryggi almennra fjarskipta sem og neyðarfjarskipta.

Þingmaðurinn spurði ráðherra meðal annars hvernig ráðherra hygðist bregðast við því ástandi þegar bilun varð hjá fjarskiptafyrirtækjum Mílu og Símanum nýverið, hvort rannsókn væri hafin á biluninni, hvenær lyki kortlagningu og þarfagreiningu á uppbyggingu háhraðaneta, hvenær muni ljúka hringtengingu ljósleiðara á Vestfjörðum ljúka og hvenær öflug háhraðatenging muni standa öllum landsmönnum til boða.

Í svari sínu sagði ráðherra meðal annars að Póst- og fjarskiptastofnun færi með eftirlit með fjarskiptum á Íslandi og kalli eftir skýrslu um stærri bilanir ef þurfa þykir og geri nauðsynlegar ráðstafanir í kjölfarið. Sagði ráðherra bilun hafa orðið í ljósleiðarabúnaði Mílu sem varð til þess að samband viðskiptavina Mílu, þar með talið Símans, á Vestfjörðum rofnaði. Varasamband Mílu um örbylgjusamband lá á sama tíma niðri vegna bilunar en bilunin hafði engin áhrif á þjónustu Vodafone á svæðinu. Vodafone brást við með því að heimila farsímanotendum Símans aðgang að sendum Vodafone og sagði ráðherra slíka samvinnu undir erfiðum kringumstæðum til eftirbreytni. Ljósleiðarahringtenging um Vestfirði mun efla fjarskiptaöryggi á svæðinu til muna

Eflir rekstraröryggi

Innanríkisráðherra sagði of snemmt að svara því hvenær hringtengingu Vestfjarða lyki; það væri óábyrgt að nefna dagsetningar. Hún hefði á grundvelli tillögu verkefnastjórnar fjarskiptaáætlunar lagt til við fjarskiptasjóð að styrkja lagningu ljósleiðara milli Súðavíkur og Brúar í Hrútafirði með viðkomu í Hólmavík. Með því næðist hringtenging ljósleiðara um Vestfirði sem muni efla rekstraröryggi bæði almennra- og neyðarfjarskipta á öllu svæðinu. Heildarráðstöfunarfé fjarskiptasjóðs sagði ráðherra vera tæpar 100 milljónir króna sem væri rúmur þriðjungur af áætluðum heildarkostnaði við verkið.

Ráðherra sagði almennt liggja fyrir góðar upplýsingar um fjarskiptaþjónustu hér á landi og að almenningur gæti nálgast myndræna gagnagrunna um útbreiðslu fjarskiptakerfa á landsvísu. Verkefnastjórn undir forystu Arnbjargar Sveinsdóttur ynni að því að endurskoða fjarskiptaáætlun og stefnt væri að því að leggja fram nýja áætlun fljótlega eftir áramót. Þá væri einnig starfandi verkefnahópur undir forystu Haraldar Benediktssonar alþingismanns sem ynni að gerð tillagna um breytingar á alþjónustu í fjarskiptum Gert er ráð fyrir að hópurinn skili tillögum sínum í október næstkomandi um mögulega uppbyggingu fjarskiptasambanda.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta