Dagur íslenskrar náttúru haldinn hátíðlegur víða um land
Degi íslenskrar náttúru var fagnað víða um land 16. september. Meðal annars undirritaði Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, viðaukasamning við Grænfánaverkefni Landverndar sem kveður á um aukna fjárveitingu til starfsemi og þróunar verkefnisins á komandi vetri.
Mikið var um alls kyns viðburði víða um land í tilefni dagsins, en að þessu sinni var áhersla lögð á virðingu við náttúruna og umgengni mannsins við hana. Algengt var að fólk nýtti daginn til gönguferða um íslenska náttúru, hvort heldur til að skoða jarðlög, rölta um fjörur, hraun, fjöll eða friðlýst svæði og var víða lagt út frá þemanu og fólk hvatt til að huga að umgengni sinni og t.a.m. ekki skilja eftir rusl eða önnur óæskileg efni í náttúrunni.
Boðið var upp á ýmis konar fræðslu, s.s. um urriðann í Þingvallavatni, um jafnvægi í náttúrunni í og við Mývatn og um notkun GPS staðsetningartækja. Dagurinn var nýttur til að setja af stað ljósmyndasamkeppnir og opnuð var ensk útgáfa Náttúrukortsins á vefnum. Þá eru ótalin fjöldi verkefna í skólum landsins. Sjá má yfirlit yfir viðburði sem efnt var til í tilefni Dags íslenskrar náttúru á vef dagsins en rétt er að geta þess að þarna er ekki um tæmandi upptalningu að ræða.
Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hóf daginn í útvarpsviðtali í Morgunútgáfunni á Rás1 og Rás2 en að því loknu hélt hann í Selásskóla þar sem hann afhenti nemendum Grænfánann. Selásskóli var meðal þeirra 12 grunnskóla sem skráðu sig fyrst til leiks í Grænfánaverkefnið þegar því var ýtt úr vör árið 2001. Var þetta í fjórða sinn sem skólinn fékk fánann, en hann er veittur til tveggja ára í senn.
Grænfáni dreginn að húni Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra afhenti Selásskóla grænfánann..
Í framhaldi af því undirritaði ráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar viðaukasamning um tveggja milljóna króna aukafjárveitingu til Grænfánaverkefnisins á komandi vetri í því skyni að hægt verði að safna og miðla árangursríkum verkefnum milli þátttökuskóla verkefnisins. Þá munu fjármunirnir nýtast til að auka getu skólasamfélagsins til að takast á við flóknari viðfangsefni umhverfismála og sjálfbæra þróun.
Síðar um daginn stóð umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir hátíðarsamkomu þar sem hann veitti RÚV, hljóðvarpi og sjónvarpi fjölmiðlaverðlaun ráðuneytisins og Tómasi J. Knútssyni Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti, sjá nánar. Auk hátíðarræðu ráðherra flutti Ásborg Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi í uppsveitum Árnessýslu hugvekju um náttúruna og sönghópurinn Spectrum flutti tónlist undir stjórn Ingveldar Ýrar Jónsdóttur.