Af samgöngum á Grænlandi
Samgöngur á Grænlandi eru með nokkuð öðrum hætti en við eigum að venjast á Íslandi. Vegir eru nánast ekki til, aðeins götur. Í höfuðborginni Nuuk eru margir bílar og ökutæki af öllu tagi en gatnakerfið er aðeins um 100 km. Það eru reyndar nánast engin vélhjól í Nuuk, enda skilst mér að þau séu ekki leyfileg hér, frekar en sleðahundar. Hundasleðar eru á hinn bóginn mikilvæg farartæki norðan við heimskautsbaug og samkvæmt upplýsingum frá tölfræðistofnun Grænlands eru um 15.800 sleðahundar á Grænlandi. Til samanburðar má geta þess að á síðasta ári voru skráðir einkabílar 3.931.
Kajakar eru enn töluvert notaðir á Grænlandi þótt nú til dags sé það mest til skemmtiferða. Hér í Nuuk standa kajakarekkar við fjörur á nokkrum stöðum, þar sem fólk getur geymt bátana sína. Bátarnir eru undantekningarlítið plastbátar, keyptir frá útlöndum. Enn smíða Grænlendingar þó kajaka með gömlu aðferðinni. Við gömlu höfnina í Nuuk, “Kolonihavnen”, stendur lítið verkstæði, sem rekið er af kajakafélaginu, þar sem félagsmenn geta komið og smíðað sinn bát. Ég heimsótti kajakaverkstæði í Qaqortoq á suður-Grænlandi í vor og ég hef heyrt að sambærileg verkstæði sé að finna víða í stærri bæjum.
Í bæ þar sem hægt er að þræða allar götur á svo sem klukkustund er ekki von að menn aki um með hjólhýsi í eftirdragi. Hér í landi eru slíkir vagnar óþekkt fyrirbrigði. Það breytir þó ekki því að Nuukbúar eru afar duglegir að bregða sér út fyrir bæinn um helgar. Til þess nota þeir báta af öllum stærðum og gerðum, allt frá litlum opnum bátum, sem þeir kalla jullur og uppí 50 feta glæsifleytur. En nánast allir eiga þeir það sameiginlegt að vera hraðgengir. Mér hefur verið tjáð að í Nuuk séu yfir þúsund bátar, eða u.þ.b. einn bátur á hverja sautján íbúa. Þrátt fyrir þennan mikla fjölda eru slys frekar fátíð í kringum Nuuk, þrátt fyrir að bátarnir séu notaðir frá því snemma á vorin og fram í byrjun vetrar. Skýringin er sú að Nuukfjörðurinn er vel varinn af háum fjallgörðum og siglingarleiðir þess vegna stilltar. Hættan liggur hins vegar í því sem kallað er svartís, það er glær súrefnissnauður ís sem hefur brotnað úr jöklinum og marar í hálfu kafi, ósýnilegur ef gerir nokkra öldu.
Bátarnir eru líka notaðir sem farartæki á milli bæja enda kosta flugmiðarnir sitt. Stundum sér maður á fésbókinni auglýst eftir bátsfari til Manitsoq eða jafnvel Sisimuit og býðst fólk þá gjarnan til að greiða hluta í olíukostnaði.
Þeir sem ekki treysta sér til að nýta slíkan ferðamáta geta oftast komist leiðar sinnar fljúgandi. Samgöngur með flugi eru á háu stigi á Grænlandi. Hægt er að komast nánast hvert á land sem er. Oft þarf reyndar að skipta um flugvél á leiðinni og jafnvel fara síðasta spottann með þyrlu eða báti. Miklar vegalengdir og fáir farþegar valda því að kostnaður er að jafnaði hár fyrir flugfarþega. Ef maður ímyndar sér að Grænland væri rifið upp með rótum og nyrsti endi þess lagður að Reykjavík myndi syðri endinn ná alla leið að Miðjarðarhafi. Íbúar Grænlands eru aðeins um fimmtíu og sex þúsund og erlendir ferðamenn ennþá tiltölulega fáir, sem ef til vill stafar að einhverju leyti af háum ferðakostnaði.
Ferðamenn, sem ekki eru á hraðferð eiga þann kost að ferðast með strandferðaskipinu Sarfaq Ittuk, sem siglir fram og til baka milli Ilulissat við Diskóflóa í norðri og Qaqortoq í suðri. Ferðin tekur um þrjá og hálfan dag hvora leið og þegar siglt er frá Ilulissat er stoppað í níu bæjum á leiðinni til Qaqortoq þ.e. í Aasiaat, Sisimiut, Kangaamiut, Manitsoq, Nuuk, Qeqertarsuatsiaat, Paamiut, Arsuk og Narsaq. Þessi ferðamáti gæti hentað ferðamönnum ágætlega sem koma til Grænlands frá Íslandi því Flugfélag Íslands býður stóran hluta ársins flug til og frá Ilulissat og Narsarsuaq, sem er ekki svo langt frá Qaqortoq, auk flugs til og frá Nuuk árið um kring.