Hoppa yfir valmynd
20. september 2014 Dómsmálaráðuneytið

Dómsmálaráðherra kynnti sér starfsemi Héraðsdóms Reykjavíkur

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson dómsmálaráðherra heimsótti Héraðsdóm Reykjavíkur nýverið og kynnti sér starfsemi dómstólsins. Ingimundur Einarsson dómstjóri og Skúli Magnússon, héraðsdómari og formaður í Dómarafélagi Íslands, gengu með ráðherra og fylgdarliði um húsnæði héraðsdóms. Greindu þeir síðan frá helstu þáttum starfseminnar ásamt þeim Símoni Sigvaldasyni, héraðsdómara og formanni dómstólaráðs, Ólöfu Finnsdóttur, framkvæmdastjóra dómstólaráðs, og Friðriki Þ. Stefánssyni, rekstrar- og mannauðsstjóra.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson dómsmálaráðherra heimsótti Héraðsdóm Reykjavíkur.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson dómsmálaráðherra heimsótti Héraðsdóm Reykjavíkur.

Alls starfa nú 25 dómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur og starfsmenn dómsins í heild eru 50 í 49 stöðugildum. Heildarfjöldi innkominna mála hefur verið síðustu ár milli 9.600 og 10.900 og á síðasta ári var fjöldinn 10.487. Ingimundur Einarsson telur líklegt að málafjöldinn verði svipaður á  þessu ári. Hann sagði ekki hægt að draga of víðtækar ályktanir af málafjöldanum einum; skoða yrði hvers eðlis málin væru. Sagði hann þó ekki fara á milli mála að einkamál væru nú mörg hver mun umfangsmeiri og flóknari viðfangs en áður.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson dómsmálaráðherra heimsótti Héraðsdóm Reykjavíkur.

Fram kom á fundinum með fulltrúum héraðsdóms og dómstólaráðs að rekstur dómstóla væri erfiður  og yrði kostnaður héraðsdómskerfisins og dómstólaráðs um 112 milljónum króna hærri en samþykktar fjárveitingar þessa árs. Gert væri ráð fyrir viðbótarframlagi í fjárlagafrumvarpi næsta árs og fjáraukalögum ársins en þrátt fyrir þær viðbætur yrði reksturinn í járnum.

Fram kom einnig á fundinum að mikið álag væri á dómstólnum og öllum starfsmönnum hans og væri nauðsynlegt að dómstólar byggju við góða aðstöðu við slíkt álag. Rætt var í lokin um húsnæðismál héraðsdóms við Lækjartorg í Reykjavík og kom fram eindregin ósk fulltrúa dómsins að vandað yrði til vals á staðsetningu nýs dómshúss og unnið að því í nánu samráði við dóminn ef ætlunin væri að flytja héraðsdóm úr núverandi húsnæði.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta