Dómsmálaráðherra sendir réttarfarsnefnd og stjórnsýslu- og eftirlitsnefnd erindi vegna símahlustunar
Dómsmálaráðherra hefur ritað stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis bréf í framhaldi af því að athygli ráðuneytisins hefur verið vakin á fullyrðingum um að framkvæmd símahlustunar við rannsókn sakamála og eftirlit með þeim kunni að vera ábótavant. Er lagt í hendur nefndarinnar að meta hvort ástæða sé til athugunar á téðum fullyrðingum á vettvangi nefndarinnar. Undir bréfið skrifar Eygló Harðardóttir sem nú gegnir embættinu fyrir Sigmund Davíð Gunnlaugsson dómsmálaráherra.
Einnig hefur ráðherra ritað réttarfarsnefnd í framhaldi af erindi tveggja lögmanna þar sem gerð er grein fyrir ýmsum atriðum er betur mega fara að þeirra mati við meðferð sakamála. Varða þær ábendingar meðal annars samskipti lögmanna og verjenda, framsetningu dóma í sakamálum, símahlustanir, húsleit og sönnunarbyrði. Þá hefur ráðuneytinu einnig borist ályktun stjórnar Lögmannafélags Íslands varðandi samskipti verjenda og vitna. Óskar ráðherra eftir að réttarfarsnefnd taki framangreint til skoðunar og telji nefndin ástæðu til breytinga á lögum vegna þeirra athugasemda sem þar koma fram óskar ráðherra eftir að nefndin komi með tillögur að slíkum breytingum.
Þá fer ráðherra þess á leit við réttarfarsnefnd að hún taki sérstaklega til skoðunar ákvæði laga um meðferð sakamála er varða símahlustun og hvort ástæða sé til að gera breytingar á ákvæðum er varða skilyrði fyrir símahlustun sem og hvernig staðið skuli að eftirliti með slíkum aðgerðum. Telji nefndin rétt að breytingar verði gerðar á lögunum er þess óskað að nefndin sendi ráðuneytinu tillögur sínar að breytingum.