Frumvarp til nýrra laga um byggingarvörur
Umhverfis- og auðlindaráðherra mælti í gær fyrir frumvarpi til laga um byggingarvörur sem felur í sér nýja heildarlöggjöf á þessu sviði verði frumvarpið að lögum. Tilgangurinn með löggjöfinni er að tryggja að áreiðanlegar upplýsingar liggi fyrir um eiginleika byggingarvara með tilliti til þeirra grunnkrafna sem mannvirkjum er ætlað að uppfylla, t.d. um öryggi og hollustu.
Um er að ræða innleiðingu á reglugerð Evrópusambandsins um samræmd skilyrði fyrir markaðssetningu byggingarvara sem tók gildi innan Evrópusambandsins 1. júlí 2013. Í reglunum felst sú hugsun að með því að samræma aðferðir, kröfur og hugtakanotkun innan Evrópu skapist grundvöllur fyrir frjálsu flæði byggingarvara á því svæði. Hin nýja reglugerð ESB byggist að meginstefnu til á sama kerfi og eldri tilskipun, en grundvallarhugtök og ýmis vafaatriði eru skýrð og kveðið skýrt á um skyldu til CE-merkingar. Ákvæði um ábyrgð, hlutverk og skyldur aðila eru mun skýrari en áður og málsmeðferð við mat á nothæfi byggingarvöru einfölduð, sérstaklega fyrir smærri fyrirtæki. Þá er lögð meiri áhersla á upplýsingagjöf og leiðbeiningar til framleiðenda, innflytjenda og dreifenda með kröfu um að aðildarríkin setji á fót svokallaða vörutengiliði fyrir byggingariðnaðinn.
Með innleiðingu reglugerðar ESB er gert ráð fyrir skilvirkara markaðseftirliti en áður og skýrara regluverki sem vænta má að verði m.a. til hagsbóta fyrir neytendur og þá fagaðila sem koma að mannvirkjagerð sem og eigendur mannvirkja.