Reglugerð um flýtimeðferð hælisumsókna gefin út
Innanríkisráðherra hefur skrifað undir reglugerð um hvaða skilyrði geta verið fyrir sérstakri málsmeðferð umsækjenda um hæli hér á landi, svokallaða flýtimeðferð. Í flýtimeðferð felst að ekki er talin þörf á fullri efnismeðferð umsóknar um hæli, afgreiðslu umsóknar er forgangsraðað á undan öðrum umsóknum og/eða frestir í málsmeðferðinni eru styttri en þegar mál hljóta fulla efnismeðferð, svo sem vegna gagnaöflunar.
Nokkur skilyrði eru tilgreind í reglugerðinni fyrir því að mál geti sætt flýtimeðferð. Þau eru meðal annarra þessi og eru þau útskýrð nánar í 3. til 8. grein reglugerðarinnar:
- Þegar líkur eru á samþykki umsóknar.
- Þegar sérstakar ástæður er varða umsækjanda mæla með því.
- Þegar umsókn um hæli er bersýnilega tilhæfulaus.
- Þegar umsækjandi um hæli gefur ófullkomnar eða misvísandi upplýsingar
eða þegar þær upplýsingar gefa ekki tilefni til að ætla
að ákvæði 44. gr. útlendingalaga eigi við. - Þegar um endurtekna umsókn er að ræða eftir synjun hælisumsóknar
eða þegar umsókn hefur verið dregin til baka. - Þegar víst má telja að umsókn um hæli sé lögð fram
í því skyni að tefja framkvæmd ákvörðunar um brottvísun.
Reglugerðin er sett með heimild í 4. mgr. 50. gr. d í lögum um útlendinga, nr. 96/2002, með síðari breytingum. Hún hefur verið birt í Stjórnartíðindum og öðlast þegar gildi.