Hoppa yfir valmynd
25. september 2014 Innviðaráðuneytið

Farþegum hefur fjölgað á nánast öllum leiðum almenningssamgöngukerfisins

Efling almenningssamgangna á landsbyggðinni í kjölfar þess að sérleyfakerfið var lagt niður var umræðuefni Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra á fundi með fulltrúum landshlutasamtaka sveitarfélaga sem haldinn var í gær í tengslum við landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga sem nú stendur á Akureyri.

Hanna Birna Kristjánsdóttir fundaði um almenningssamgöngur með fulltrúum landshlutasamtaka sveitarfélaga.
Hanna Birna Kristjánsdóttir fundaði um almenningssamgöngur með fulltrúum landshlutasamtaka sveitarfélaga.

Á fundinum fór ráðherra yfir reynslu sem fengist hefur af breyttu kerfi almenningssamgangna eftir að landshlutasamtökunum var falin ábyrgð á rekstri þess. Fram kom að aukning farþega á milli áranna 2012 og 2013 var 13% og á milli áranna 2013 og 2014 er hún orðin 38%.

Á fundinum lagði ráðherra fram drög að áfangaskýrslu starfshóps um framkvæmd samninga um almenningssamgöngur sem nokkur landshlutasamtök hafa gert á undanförnum árum og reynsluna sem fengist hefur af breyttu kerfi. Felst breytingin meðal annars í því að nú ákveða landshlutasamtökin hver þjónustan á að vera og hafa mörg þeirra nú leitað eftir að styrkja þjónustuna með því að samþætta akstur í þágu almennings, svo og skólaakstur, akstur fyrir fatlaða og fleiri þætti. Þá kynnti ráðherra drög að frumvarpi til laga um farþegaflutninga í atvinnuskyni sem leggja á fyrir Alþingi á næstunni. Markmið laganna er að efla öruggar og umhverfisvænar samgöngur fyrir almenning sem taka mið af þörfum samfélagsins fyrir hagkvæmar almenningssamgöngur og stuðla að styrkingu byggðar í landinu.

Fulltrúar landshlutasamtaka sveitarfélaga sátu fund um almenningssamgöngur með innanríkisráðherra.

Fram kom í máli ráðherra að starfshópur sem skipaður var síðastliðið vor skoðar nú hvernig til hefur tekist með framkvæmd almenningssamgangna á fyrsta tímabili gildandi samgönguáætlunar. Í drögum að áfangaskýrslu hópsins kemur fram að breytingarnar hafa skilað góðum árangri, ánægja notenda hefur aukist og umtalsverð fjölgun farþega hefur verið á nánast öllum leiðum. Fram kom einnig að mismunandi útfærslur á samgöngukerfinu í einstökum landshlutum hafa skilað mikilli reynslu og að á sumum svæðum hafi tekist að sameina skólaakstur og almenningssamgöngur, einnig starfsmannaakstur fyrirtækja og akstur vegna framhaldsskóla.

Á fundinum var óskað eftir því að landshlutasamtökin kæmu á framfæri við ráðuneytið athugasemdum við áfangaskýrsluna og að málið yrði síðan rætt áfram.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta