Framlag til baráttunnar gegn ebólu
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur ákveðið að veita 12 milljónum kr. til baráttunnar gegn ebólu en framlögin fara til Matvælaáætlunar SÞ og Barnahjálpar SÞ. Sú fyrrnefnda veitir matvælaaðstoð til svæða þar sem veiran hefur brotist út og Barnahjálp SÞ veitir önnur hjálpargögn og er sá aðili innan SÞ sem hefur umsjón með því að tryggja vatns- og hreinlætisaðstöðu á neyðarsvæðum.
Útbreiðsla ebólu hefur aukist hratt frá því að faraldur braust út í Vestur-Afríku í mars á þessu ári og telur öryggisráð Sameinuðu þjóðanna að faraldurinn ógni heimsfriði. Þegar hafa um þrjú þúsund manns látist af völdum sjúkdómsins, flestir í Líberíu, Síerra Leóne og Gíneu. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin telur að fjöldi ebólu-tilfella muni þrefaldast á næstu tveimur mánuðum, verði um tuttugu þúsund í nóvember, og fari hratt fjölgandi verði ekki gripið til róttækra aðgerða nú þegar.
Það er mat samræmingarskrifstofu SÞ í mannúðarmálum og Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar að eina milljón bandaríkjadala þurfi frá alþjóðasamfélaginu til þess að geta sinnt brýnustu þörfum íbúa á svæðinu í baráttunni gegn veirunni. Mikil þörf er fyrir sérhæft starfsfólk, neyðarbirgðir, sjúkraflutningatæki, matvæli og vatns- og hreinlætisaðstöðu.