Hoppa yfir valmynd
26. september 2014 Utanríkisráðuneytið

Jafntefli

Íslenskir fótboltaunnendur í París

Fátt er skemmtilegra í starfi okkar í sendiráðum en að sjá Íslendinga standa sig vel í alþjóðlegum samanburði - vera langbest miðað við höfðatölu og rúmlega það. Nýlega varð  varð ég þess heiðurs aðnjótandi  að horfa á knattspyrnulandsliðið undir 21 árs gera jafntefli  gegn Frökkum.  Leiknum lauk 1-1  og verða það að teljast frábær úrslit gegn afar sterku liði Frakklands.  Þar sem úrslit í öðrum leikjum hafa orðið Íslendingum hagstæð  fáum við tækifæri til að spila í 14 liða úrslitum um 7 sæti í lokakeppninnisem fram fer í Tékklandi á næsta ári.

Ég hef  ekki verið sérstaklega  áhugasöm um knattsyrnu, þrátt fyrir að amma mín hafi fram á 95. aldursár  farið á flesta fótboltaleiki á Húsavik til að hvetja  Völsung. Ég horfði hins vegar mikið á heimsmeistarakeppnina  í sumar og hafði mjög gaman af.

Landslið karla  undir 21 árs er skipað frábærum leikmönnum og  mér taldist til að  níu  þeirra væru að spila með liðum erlendis. Frakkar hafa auðvitað úr 60 milljón manns að velja sem þýðir að á móti hverjum 10  manna hópi sem Ísland getur  valið úr eru það  2000  hjá Frökkunum.  Jafntefli gagnvart Frakklandi er því raunverulega stórsigur fyrir okkur Íslendinga.

Við vorum  fjórir Íslendingar sem sátum  í boði franska knattspyrnusambandsins  í heiðursstúku. Í sendiráðinu fannst risastór íslenskur  fáni  sem var tekin með á leikinn og áttum við fjögur fullt í fangi með að halda honum á lofti.   

Markalaust var í hálfleik og við fjórmenningar vorum borubrött  innan  um íþróttamálaráðherra Frakklands, forystumenn í franskri knattspyrnu og bæjarstjórana í Chablis og Auxerre í hléinu.  Leikurinn fór fram í Auxerre í Búrgúndar-héraði en þar  er  afkoma íbúa mjög tengd því hversu góðir vínárgangarnir  eru.

Eyjólfur Sverrisson þjálfari hafði greinilega gefið liðinu fyrirmæli um að verjast með öllum tiltækum ráðum gegn hinu spræka franska liði og það var liðið langt á seinni hálfleik þegar Frökkum tókst loks að skora mark.  Eyjólfur beið þá ekki boðanna heldur skipti snarlega út tveimur mönnum og skyndilega breytist leikur Íslendinga í sóknarleik.  Það bar árangur og Kristján Gauti Emilsson jafnaði.

Eftir leikinn áttum við þess kost að hitta þessa frábæru pilta  og tjá þeim hrifningu okkar og hvílikt afrek þetta væri. 

Það er öruggt að hér eftir mun ég  fylgjast sérstaklega vel með árangri þessara ungu manna sem voru landi og þjóð til mikils sóma

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta