Tómas H. Heiðar tekur sæti í Alþjóðlega hafréttardóminum
Tómas H. Heiðar tók í dag formlega við embætti dómara við Alþjóðlega hafréttardóminn í Hamborg og sór hann embættiseið við hátíðlega athöfn. Tómas var kjörinn dómari til níu ára á fundi aðildarríkja hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna 11. júní sl. Skipar hann eitt af þremur sætum sem tilheyra hópi vestrænna ríkja en hin sætin eru skipuð dómurum frá Frakklandi og Þýskalandi. Tómas var áður þjóðréttarfræðingur í utanríkisráðuneytinu þar sem hann hafði starfað í um 20 ár.
Alþjóðlega hafréttardóminum var komið á fót með hafréttarsamningnum og er hann skipaður 21 óháðum dómara, kosnum úr hópi manna sem eru viðurkenndir sérfræðingar á sviði hafréttar. Dómurinn tók til starfa árið1996 og hefur hann haft alls 22 mál til meðferðar.