Hoppa yfir valmynd
9. október 2014 Innviðaráðuneytið

Unnið verður að útfærslu breytinga á regluverki Jöfnunarsjóðs í vetur

Tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á síðasta ári námu alls 34,6 milljörðum króna og framlög úr sjóðnum 34,8 milljörðum króna. Er það rúmlega tveggja milljarða króna hækkun á tekjum og framlögum frá árinu 2012. Þetta kom fram á ársfundi sjóðsins sem fór fram í Reykjavík í gær.

Innanríkisráðherra flutti ávarp á ársfundi Jöfnunarsjóðs í dag.
Innanríkisráðherra flutti ávarp á ársfundi Jöfnunarsjóðs í dag.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra ávarpaði fundinn í upphafi og minnti hún meðal annars á þá skoðun sína að mikilvægt væri að gera ákveðna breytingu á reglum Jöfnunarsjóðs varðandi tekjujöfnunarframlög og því ákvæði sem skyldar sveitarfélög sem fá jöfnunarframlag til að fullnýta útsvarsheimildir sínar. Kvaðst hún hafa fengið margar ábendingar frá sveitarstjórnarfulltrúum um að skoða rýmkun á ákvæðinu og sagði ráðherra stefnt að því að ná fram markvissari jöfnun án þess að reyna að stjórna sveitarfélögunum á því sviði. Ráðherra sagði unnið að skoðun á regluverki sjóðsins sem yrði rætt í vetur á milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og ráðuneytisins og væri stefnt að því að kynna tillögur fyrir sveitarstjórnarfólki í byrjun næsta árs. Þá væri stefnt að því að frumvarp verði lagt fyrir haustþingið 2015 sem innleiða myndi nýtt skipulag og úthlutunarreglur fyrir sjóðinn.

Fjölgað um tvo í ráðgjafarnefnd

Þá greindi ráðherra frá þeirri hugmynd að fjölga fulltrúum í ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðsins úr fimm í sjö. Sjónarmiðin að baki því væru þau að nauðsynlegt sé að koma að fulltrúum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu að þessu umræðuborði vegna aukinna hagsmuna þeirra varðandi úthlutun framlaga úr sjóðnum. Þau sveitarfélög hafi áður fengið hlutfallslega mjög lítið úr sjóðnum en með breytingum á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og auknu hlutverki sjóðsins væri það breytt.

Elín Pálsdóttir, forstöðumaður Jöfnunarsjóðs flutti skýrslu sína og skýrði frá reikningum.

Auk ávarps innanríkisráðherra flutti Elín Pálsdóttir, forstöðumaður sjóðsins, skýrslu sína og fór yfir reikninga sjóðsins, Bergur Sigurjónsson, sérfræðingur hjá sjóðnum, ræddi um heildarendurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðsins og Guðni Geir Einarsson, sérfræðingur hjá Jöfnunarsjóði, greindi frá endurmati á yfirfærslu þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga.

Í erindi sínu fór Bergur meðal annars yfir helstu markmið jöfnunarkerfis sem væri að veita sveitarstjórnum möguleika á að veita sambærilega þjónustu milli ólíkra sveitarfélaga og stuðla að dreifingu fjármagns þannig að sveitarfélög séu jafnari. Bergur sagði flækjustig Jöfnunarsjóðs talsvert og að við endurskoðun á regluverkinu værii til skoðunar að gjörbreyta jöfnunarkerfinu og að nota nýjar aðferðir við jöfnunaraðgerðir og gera þær markvissari. Bergur greindi frá jöfnunarkerfi Norðmanna sem hann sagði nokkuð einfalt að yfirfæra á Ísland. Þá sagði hann ráðgert að halda samráðsfund með fulltrúum sveitarfélaga kringum áramót.

Guðni Geir fjallaði um endurmat á flutningi verkefnisins um þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga árið 2011 sem hann sagði að lyki í næsta mánuði. Fram kom hjá Guðna Geir að við innleiðingu jöfnunarkerfis vegna þjónustunnar hefði meðal annars komið í ljós að söfnun upplýsinga hefði reynst umfangsmikil og flókin.

Ársfundur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga var haldinn í dag.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta