Kynningarfundur um mótun geðheilbrigðisstefnu 17. október
Vinna við mótun geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaáætlun er hafin á vegum heilbrigðisráðherra í samvinnu við félags- og húsnæðismálaráðherra, líkt og kveðið er á um í ályktun Alþingis þess efnis. Kynningarfundur um stefnumótunarvinnuna verður á Grand hóteli 17. október nk.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur skipað stýrihóp til að leiða stefnumótunarvinnuna og er fundurinn á Grand hóteli haldinn á vegum þess hóps. Þegar liggur fyrir ákvörðun um að skipta verkefninu í smærri einingar eftir afmörkuðum viðfangsefnum og verða settir á stofn fimm starfshópar um hvert þeirra. Þessi viðfangsefni eru:
- Geðrækt og forvarnir.
- Meðferð, fyrsta stigs þjónusta, samspil milli þjónustusstiga og þjónustusviða.
- Viðkvæm lífsskeið, börn, aldraðir, jaðarhópar.
- Fordómar og mismunun.
- Geðfatlaðir – réttindi, heilbrigðis- og félagsþjónusta.
Kynningarfundurinn á Grand hóteli þann 17. október hefst kl. 13.00 með ávarpi heilbrigðisráðherra. Að því búnu verður skipulag starfsins kynnt og sömuleiðis fyrirhugað hópastarf. Fundinum lýkur með samantekt kl. 16.00.
Formaður stýrihópsins er Guðrún Sigurjónsdóttir. Aðrir nefndarmenn eru; Anna Margrét Guðjónsdóttir, Berglind Guðmundsdóttir, Engilbert Sigurðsson, Halldór Gunnarsson, Héðinn Unnsteinsson og Soffía Lárusdóttir.
Þeir sem vilja taka þátt í kynningarfundinum eru beðnir að tilkynna þátttöku sína fyrir hádegi þriðjudaginn 14. október með tölvupósti sem senda skal á netfangið: [email protected].