Hoppa yfir valmynd
15. október 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

20. fundur aðgerðahóps um launajafnrétti

Fundarheiti og nr. fundar: 20. fundur aðgerðahóps um launajafnrétti.
Staður og stund:
Velferðarráðuneytið, 15. október 2014. Kl. 14.00–16.00.
Málsnúmer:
VEL12100264.

Mætt: Ása Sigríður Þórisdóttir (BHM), Hannes G. Sigurðsson (HGS, SA), Sonja Ýr Þorbergsdóttir (SÝÞ, BSRB), Maríanna Traustadóttir (MT, ASÍ), Guðný Einarsdóttir (GE, FJR) Anna Kolbrún Árnadóttir, formaður aðgerðahóps (AKÁ), Rósa G. Erlingsdóttir (RGE, VEL) starfsmaður aðgerðahóps.

Forföll boðuðu: Benedikt Valsson (BV, Svf), Hafdís Dögg Guðmundsdóttir (HDG, KÍ), Jóna Pálsdóttir (JP, MRN), Eva Margrét Kristinsdóttir (EMK, VEL).

Fundarritari: Rósa Guðrún Erlingsdóttir.

Dagskrá: 

1.            Fundargerð 20. fundar lögð fram til samþykktar

Fundargerð samþykkt.

2.            Kynning á rannsóknarverkefnum aðgerðahóps

Margrét Gylfadóttir, sérfræðingur á Hagstofu Íslands, gerði grein fyrir framvindu rannsóknar á kynbundnum launamun. Verkefnið gengur samkvæmt áætlun, á grundvelli samnings sem undirritaður var í júlí síðastliðnum. Sérfræðiteymi aðgerðahóps fundar reglulega með sérfræðingum Hagstofunnar. Gert er ráð fyrir að Hagstofan skili fyrstu niðurstöðum í nóvember næstkomandi.

Katrín Ólafsdóttir og Steinunn Rögnvaldsdóttir gerðu grein fyrir framvindu  gerðar rannsóknarskýrslu um stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði. Stefnt er að því að skýrslan verði tilbúin í lok mars og verði kynnt á ráðstefnu á vormánuðum 2015. Beiðni um fjárframlög vegna þessara verkefna hefur verið send samstarfsaðilum í aðgerðahópi.

3.            Tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðals – hönnunarsamkeppni um jafnlaunamerki

GE fór yfir stöðu tilraunaverkefnis um innleiðingu jafnlaunastaðals. Fram kom að verkefnið gangi vel en heldur dræm mæting hefur verið á mánaðarlegum fundum með þátttakendum. Stofnanir eru mislangt á veg komnar en 2–3 ættu jafnvel að vera tilbúnar í úttekt í desember á þessu ári.

Drög að samstarfsyfirlýsingu milli samtaka aðila vinnumarkaðarins, fjármála- og efnhagsráðuneytisins og velferðarráðuneytisins um fræðslu og ráðgjöf við innleiðingu á jafnlaunastaðli voru lögð fyrir fundinn. Ákveðið var að stefna að undirritun hennar í tengslum við ráðstefnu um jafnlaunamál og jafnrétti á vinnumarkaði sem aðgerðahópurinn tekur þátt í að skipuleggja. GE og RGE gerðu grein fyrir fundum með Guðrúnu Rögnvaldsdóttur frá Staðlaráði Íslands annars vegar og hins vegar fulltrúum úr stjórn Starfsmenntar en aðgerðahópur hafði óskað eftir því að námskeið fyrir vottunaraðila, sem halda á samkvæmt reglugerð um jafnlaunavottun, yrðu á vegum Starfsmenntar. Stjórnin telur Starfsmennt ekki vera réttan vettvang til að halda  námskeið fyrir vottunaraðila og verður því leitað annarra leiða.

GE gerði einnig grein fyrir framvindu verkefnis um hönnunarsamkeppni aðgerðahópsins og Hönnunarmiðstöðvar Íslands um jafnlaunamerki. Tveir fulltrúar aðgerðahóps munu sitja í dómnefnd; Benedikt Þór Valsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Guðný Einarsdóttir, frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.  Stefnt er að því að veita viðurkenningu fyrir verðlaunatillögu um jafnlaunamerki þann 13. nóvember í tengslum við ráðstefnuna.

4.            Ráðstefna um jafnlaunamál og jafnrétti á vinnumarkaði 13. nóvember 2014

RGE kynnti drög að dagskrá ráðstefnu um jafnlaunamál og jafnrétti á vinnumarkaði sem haldin verður þann 13. nóvember í Reykjavík í samstarfi aðgerðahópsins og formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Samstarfsaðilar voru hvattir til að birta auglýsingu um ráðstefnuna og hvetja félagsmenn sína til að sækja hana.  MT hefur tekið að sér að flytja erindi fyrir hönd aðgerðahópsins á ráðstefnunni.

5.            Önnur mál

Rætt var um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum 2015–2018. Í drögum hennar er gert ráð fyrir áframhaldandi starfi aðgerðahópsins.

Næsti fundur aðgerðahópsins verður miðvikudaginn 19. nóvember kl. 14.00–16.00 í velferðarráðuneytinu.      

Rósa Guðrún Erlingsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta