Hoppa yfir valmynd
17. október 2014 Utanríkisráðuneytið

Aukin tengsl við afkomendur Íslendinga í Brasilíu

Gunnar Bragi og Nanna Söndahl

Í gær var opnuð kjörræðisskrifstofa Íslands í Curitiba í Brasilíu. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra, sem er í heimsókn í Brasilíu, hélt ræðu við það tilefni þar sem hann lýsti formlega yfir opnun skrifstofunnar og skipun kjörræðismanns Íslands í borginni, Magnúsar Ólasonar. 

Í ræðu Gunnars Braga rifjaði hann upp sögu þeirra Íslendinga sem fluttu búferlum til Brasilíu á síðari hluta 19. aldar. Sagði hann að áhugi á Íslandi á sögu þessa fólks hefði aukist á undanförnum árum, ekki síst vegna heimildarmyndar Sigursteins Mássonar um Brasilíufarana en Gunnar Bragi gaf íbúum Curitiba af íslenskum ættum eintak af myndinni. Einnig afhenti hann bréf frá Þjóðræknisfélagi Íslands sem óskar eftir því efla að tengsl við afkomendur í Brasilíu. Er ungt fólk þar hvatt til að kynna sér Snorraverkefnið svokallaða en markmið þess er að því að gera því kleift að heimsækja Ísland til að fræðast um uppruna sinn.

Þá heimsótti Gunnar Bragi Nönnu Söndahl, síðasta núlifandi afkomanda fyrstu kynslóðar íslensku Brasilíufaranna en hún er 99 ára gömul. Faðir hennar var Magnús Árnason Söndahl sem fluttist átta ára gamall með foreldrum sínum, Árna Sigfússyni frá Ljótsstöðum í Sunnudal í Vopnafirði og eiginkonu hans, Guðrúnu Halldóru Magnúsdóttur, til Brasilíu árið 1873. Nanna lærði læknisfræði og var þriðja konan í Curitiba til að starfa sem læknir í borginni. Hún vann að því að efla tengsl afkomendanna við Ísland ásamt bróður sínum sem var ræðismaður Íslands í borginni til 2005 þegar hann lést.

Í Curitiba búa tvær milljónir manna en borgin er þekkt fyrir öflugt viðskiptalíf, menntun og skipulagsmál. Á síðasta ári ákváðu borgaryfirvöld að stofna til vinabæjartengsla við Akureyri. Curitiba er þriðja borg Brasilíu þar sem sett er á stofn íslensk kjörræðisskrifstofa, en fyrir eru skrifstofur í Rio de Janeiro og Sao Paulo.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta