Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna útskrifar 29 nemendur
Í dag útskrifuðust 29 nemendur úr Jarðhitaskóla HSÞ á Íslandi, 9 konur og 20 karlar. Er þetta í 36. sinn sem skólinn útskrifar nemendur úr sex mánaða þjálfun á Íslandi, en skólinn hóf starfsemi árið 1979.
Frá upphafi hafa 583 nemendur frá 58 löndum útskrifast úr skólanum, en auk þess stendur skólinn fyrir styttri námskeiðum í þróunarlöndum þar sem fleiri sérfræðingum gefst tækifæri á þjálfun.
Við útskriftina flutti Hermann Örn Ingólfsson, skrifstofustjóri alþjóða- og öryggisskrifstofu ávarp. Í því lagði hann ríka áherslu á mikilvægi jarðhitanýtingar, ekki aðeins fyrir framfarir og betri lífskjör í þróunarlöndum, heldur einnig sem mikilvægan þátt í að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga.
Þá greindi hann frá þeirri áherslu sem íslensk stjórnvöld hafa lagt á endurnýjanlega orku þegar kemur að sjálfbærri þróun, en nýting jarðhita er m.a. einn af þeim fjórum málaflokkum sem lögð er áhersla á þegar kemur að mótun nýrra þróunarmarkmiða. Þá fór hann yfir verkefni Íslands og Alþjóðabankans á sviði jarðhitavæðingar í Austur Afríku, en Þróunarsamvinnustofnun Íslands er framkvæmdaaðili fyrsta hluta þess verkefnis.
Á Íslandi starfa fjórir skólar undir hatti Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Auk Landgræðsluskólans er þaðJarðhitaskóli HSÞ, Sjávarútvegsskóli HSÞ og Jafnréttisskóli HSÞ. Skólarnir fjórir eru hluti af alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands.