Hoppa yfir valmynd
22. október 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Framtíð ADHD-teymis og eftirlit með lyfjaávísunum

Meðferð
Meðferð

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra áformar að fela Sjúkratryggingum Íslands að semja við Landspítala um áframhaldandi rekstur ADHD-teymisins sem sett var á fót í byrjun síðasta árs. Gerð verður fagleg úttekt á starfsemi teymisins og eftirlit með lyfjaávísunum lækna aukið.

Markmiðið með stofnun ADHD-teymisins á sínum tíma var að bæta greiningu á ADHD (ofvirkni með athyglisbresti) hjá fullorðnum, tryggja aðgang þeirra að lyfjameðferð sem hennar þurfa með og jafnframt að sporna við misnotkun lyfja við ADHD sem er verulegt vandamál hér á landi.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra var spurður á Alþingi hvort hann hygðist tryggja áframhaldandi fjárveitingu til ADHD-teymisins í ljósi frétta um að Landspítalinn ætli að leggja það niður þar sem ekki er tilgreind fjárveiting í rekstur þess í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Ráðherra sagðist sammála stjórnendum spítalans um mikilvægi teymisins og að hann hefði sjálfur talið að gert væri ráð fyrir því í rekstrinum, líkt og alla jafna eigi við um margvíslega þjónustu sjúkrahússins án þess að sérstök grein sé gerð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu.

Ráðherra sagði vilja sinn standa til þess að tryggja framhald þeirrar þjónustu sem ADHD-teymið hefur veitt og að hann hygðist fela Sjúkratryggingum Íslands að ganga til samninga við Landspítalann í því skyni.

Ráðherra sagði frá því að hann hafi í apríl síðastliðnum falið Embætti landlæknis að funda reglulega með ADHD-teyminu, meðal annars til að meta ýmsa þætti sem gefa vísbendingar um árangur af störfum þess. Jafnframt hafi hann óskað eftir því við Embætti landlæknis og Sjúkratryggingar Íslands að samræma betur eftirlit með lyfjaávísunum einstakra lækna.

Fram hafa komið ábendingar af hálfu Embættis landlæknis og Sjúkratrygginga um að ákveðin atriði í lögum sem varða persónuvernd torveldi eftirlit með lyfjaávísunum. Ráðherra segir að þessar ábendingar séu til skoðunar í velferðarráðuneytinu og að mikilvægt sé að finna lausnir á slíkum vanda sé hann fyrir hendi til að tryggja nauðsynlegt eftirlit.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta