Hoppa yfir valmynd
22. október 2014 Utanríkisráðuneytið

Norrænu lýðheilsuverðlaunin 2014

Íþrótta og ólympíusamband Íslands hlaut Norrænu lýðheilsuverðlaunin í ár fyrir að stuðla með starfi sínu að heilbrigðum lífsstíl almennings og þar með

 bættri lýðheilsu. Verðlaunin voru afhent í tengslum við fund heilbrigðis- og félagsmálaráðherra Norðurlanda í Kaupmannahöfn í gær.

Hafsteinn Pálsson, stjórnarmaður í Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands, og Jóna Hildur Bjarnadóttir verkefnastjóri tóku við verðlaununum úr hendi Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra. Hafsteinn sagði þau fela í sér mikla viðurkenningu og hvatningu fyrir sambandið til að halda áfram starfi sínu að lýðheilsumálum: „Við höfum um árabil hvatt fólk til að taka þátt í þeirri fjölbreyttu líkamlegu hreyfingu sem boðið er upp á. Það er okkur heiður að hljóta Norrænu lýðheilsuverðlaunin“ sagði Hafsteinn meðal annars þegar hann tók við verðlaununum.

Norræna ráðherranefndin og Norræni lýðheilsuháskólinn hafa um árabil staðið fyrir veitingu Norrænu lýðheilsuverðlaunanna til að vekja athygli á mikilvægu starfi í þágu heilbrigðis og vellíðunar og eru þau ýmist veitt einstaklingi, samtökum eða stofnunum sem lagt hafa mikið af mörkum til bættrar lýðheilsu á Norðurlöndunum.

Í rökstuðningi fyrir verðlaunaveitingunni segir: „Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) hefur í meira en tvo áratugi haft mikil áhrif á lýðheilsu á Íslandi með því að leggja áherslu á að almenningur lifi heilbrigðu lífi. ÍSÍ hefur haft frumkvæði að áætlunum um hreyfingu, lífsstíl og vellíðan almennings. Áætlanirnar hafa haft mikil áhrif á fólk á öllum aldri og skilað góðum árangri hjá áhættuhópum. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands er verðugur handhafi Norrænu lýðheilsuverðlaunanna 2014 fyrir skilvirkt og kerfisbundið starf að lýðheilsumálum.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta