Frumathugun á samlegð Landmælinga Íslands og Þjóðskrár Íslands
Umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson og innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir hafa samþykkt tillögu forstjóra Landmælinga Íslands og Þjóðskrár Íslands um að gerð verði frumathugun á samlegð í starfsemi þessara stofnana.
Frumathugunin verður unnin í nánu samstarfi Landmælinga Íslands og Þjóðskrár Íslands og í samráði við þau ráðuneyti sem þessar stofnanir heyra undir.
Eftirfarandi þættir verða hafðir til grundvallar við athugunina:
- Greina núverandi starfsumhverfi stofnananna og meta hvernig ytri aðstæður geti haft áhrif á starfsemina á næstu árum.
- Greina innviði stofnananna til að meta hve vel þær eru búnar undir samþættingu eða sameiningu.
- Lýsa framtíðarsýn og skilgreina markmið með samþættingu eða sameiningu.
- Gera tillögur um valkosti.
Verkefnið er í anda stefnu núverandi ríkisstjórnar um að bæta og einfalda stjórnsýslu og þjónustu hins opinbera.
Starfshópur sem skipaður hefur verið af innanríkisráðherra mun samhliða þessu verkefni vinna að stefnumótun og skipulagi í málaflokkum Þjóðskrár Íslands og Útlendingastofnunar, sjá frétt innanríkisráðuneytisins.
Tillögur á grundvelli athugunar Landmælinga Íslands og Þjóðskrár Íslands verða settar fram í greinargerð til umhverfis- og auðlindaráðherra annars vegar og innanríkisráðherra hins vegar fyrir 1. febrúar 2015.