Efling sóttvarna og viðbúnaðar vegna ebólu
Velferðarráðuneytið og stofnanir þess hafa að undanförnu unnið að styrkingu sóttvarna og eflingu viðbúnaðar vegna ebólufaraldursins í Vestur-Afríku. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra kynnti á fundi ríkisstjórnarinnar í dag helstu verkefni sem unnið er að vegna þessa og áætlaðan kostnað vegna þeirra.
Landspítali og sóttvarnalæknir hafa á liðnum vikum unnið að þessum málum, gerð viðbragðsáætlana og þjálfun starfsfólks og verður þeirri vinnu haldið áfram. Komi til þess að flytja þurfi ebólusmitaðan einstakling frá Vestur-Afríku er æskilegt að slíkt verði gert í samstarfi við aðrar Norðurlandaþjóðir. Áhersla er lögð á að þótt ekki komi til þess að flytja þurfi ebólusmitaðan einstakling til landsins þurfi engu að síður að vera fyrir hendi viðbúnaður, enda mögulegt að sjúkdómurinn komi ekki fram fyrr en eftir að smitaður einstaklingur er kominn til landsins.
Á Landspítala hefur verið stofnað teymi starfsmanna sem fær sérstaka þjálfun í meðhöndlun ebólusjúklinga. Lágmarka þarf líkur á að heilbrigðisstarfsfólk smitist við umönnunarstörf og telur sóttvarnarlæknir litlar líkur á því ef fullrar smitgátar er gætt.
Í undirbúningi eru kaup á sérhæfðum búnaði og tækjum og húsnæðisbreytingum á Landspítala vegna þessa. Áætlað er að kostnaður sem fallið getur til vegna nauðsynlegs viðbúnaður sé um 63 milljónir króna sem fellur undir embætti sóttvarnarlæknis og um 37 milljónir króna á Landspítala.