Samstarfssamningur ráðuneytis og landsnefndar UNICEF undirritaður
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri landsnefndar UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, á Íslandi undirrituðu í dag samstarfssamning ráðuneytisins við landsnefndina fyrir tímabilið 2014-2016.
Utanríkisráðuneytið og landsnefnd UNICEF hafa um árabil átt gott samstarf, og frá árinu 2011 hefur samstarfið verið formgert með samningi. Framlög til landsnefndarinnar samkvæmt samstarfssamningnum munu nema samtals 21,5 m.kr. á gildistímanum, með fyrirvara um fjárveitingu samkvæmt fjárlögum.
Markmið samningsins er að efla kynningu á hlutverki og starfsemi UNICEF og auka samvinnu utanríkisráðuneytisins við landsnefndina. Landsnefndin hefur veitt ráðuneytinu ráðgjöf og umsögn vegna málefna á fjölþjóðlegum vettvangi hvað varðar málefni barna. Ennfremur hefur landsnefndin veitt útsendu starfsfólki á vegum Íslensku friðargæslunnar fræðslu um málefni barna áður en það fer til starfa á vettvangi.
Starf Landsnefndar Barnahjálparinnar á Íslandi er öflugt, en landsnefndin gegnir lykilhlutverki í að sinna upplýsingastarfi til almennings á Íslandi um málefni barna. Fjáröflun landsnefndarinnar er ekki síst mikilvæg, en árlega sendir landsnefndin rausnarleg framlög til höfuðstöðva UNICEF auk þess að standa reglulega fyrir sérstökum söfnunum þegar neyð brýst út.
Í þingsályktun um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnuáætlun Íslands 2013-2016, sem samþykkt var á Alþingi í mars 2013, er UNICEF skilgreind sem ein af lykilstofnunum í þróunarsamvinnu Íslands og er þar kveðið á um samstarf við landsnefndina.