Styrkir til gæðaverkefna árið 2014
Velferðarráðuneytið auglýsir eftir umsóknum um styrki vegna gæðaverkefna í heilbrigðisþjónustunni árið 2014. Að þessu sinni er sérstök áhersla lögð á verkefni sem miða að þróun þjónustufyrirkomulags við sjúklinga, þar sem heildstætt mat á þörfum einstaklinga fyrir þjónustu er haft að leiðarljósi í samræmi við áherslur heilbrigðisráðherra í verkefninu Betri heilbrigðisþjónusta 2013-2017.
Í styrkumsókn skal meðal annars koma fram markmið verkefnis, framkvæmdaáætlun og hvernig unnt væri að nýta niðurstöður til að auka öryggi og gæði heilbrigðisþjónustunnar. Sótt skal um í nafni einstakra stofnana, deilda eða starfseininga.
Styrkirnir eru að hámarki 800 þúsund krónur og nemur heildarfjárhæð styrkjanna í ár fjórum milljónum króna.
Vakin er athygli á að umsækjendum er gert að sækja um rafrænt. Umsóknarfrestur er til og með 16. nóvember 2014.