Hoppa yfir valmynd
29. október 2014 Utanríkisráðuneytið

Hver fann upp berjatínuna?

Berlín Play Nordic

Hið hefðbundna meginhlutverk utanríkisþjónustu hefur verið að gæta pólitískra og efnahagslegra hagsmuna ríkisins og það jafnan á afar formlegan hátt. Eitt hlutverk, sem þó er ekki alveg nýtt af nálinni, hefur vaxið hratt í starfi utanríkisþjónusta á síðustu árum, og er kennt við public diplomacy. Ég lýsi hér með eftir góðri þýðingu á hugtakinu en það vísar til kynningar- og menningarstarfs, sem miðar að því að efla orðspor ríkja og beinist að fjölmiðlum og almenningi erlendis, fremur en stjórnvöldum.

Public diplomacy er umfangsmikill og vaxandi þáttur í starfsemi okkar í sendiráðinu í Berlín og sinnum við hundruð slíkra verkefna á ári hverju. Á formennskuári Íslands í Norrænu samstarfi á yfirstandandi ári var komið að sendiráði Íslands að sinna public diplomacy fyrir öll Norðurlöndin hér í Þýskalandi. Þetta starf lagðist ofan á hefðbundna starfsemi sendiráðsins en við leggjum með ánægju okkar af mörkum í þágu norræna samstarfsins, sem við njótum góðs af.

© 2014 Kristján Czakó Visual ImpactVið skipulögðum fjölmargar norrænar heimsóknir, ráðstefnur og fundi. Hæst bar þó tónlistar- og hönnunarhátíðina Play Nordic sem opnuð var í Felleshusi, norræna húsinu í Berlín að viðstöddum hátt í 800 gestum í júlí. Hátíðin stóð í þrjá mánuði, efnt var til tuga tónleika og tengslaviðburða með þátttöku á þriðja hundrað norrænna listamanna og fulltrúum fyrirtækja af ýmsum toga. Frá Íslandi tóku sem dæmi þátt Sóley, Sin Fang, Lay Low, trúbadorinn Svavar Knútur og Sunna Gunnlaugsdóttir jasspíanisti með Juliu Hülsmann, auk DJs á vegum Extreeme Chill hátíðarinnar. Ragnar Fjalar hannaði merki hátíðarinnar. Íslensk fyrirtæki sem tóku þátt voru m.a. auk Útflutningsskrifstofu tónlistar HARPA tónlistarhús, 12 Tónar, Record Records og Gis von Ice umboðsmaður. Þessi mikla vinna skilaði sér svo sannarlega því rúmlega 22.000 gestir sóttu hátíðina og um 200 umfjallanir birtust um hana í þýskum fjölmiðlum.

Felleshus hefur verið iðandi samkomuhús, með Oslo Kaffibar, húsgagnahönnun ungra norrænna hönnuða, þar sem kaffigestir hafa hreiðrað um sig í Fifty stólum, eftir Dögg Guðmundsdóttur og Rikke Arnved sem húsgagnarisinn Ligne Roset framleiðir en þeir hafa vakið heilmikla athygli og komið til kapphlaups um að fá að sitja í þeim.

Hægt var að horfa á ljósmyndainnsetningu um Norræna spilunarlistann og hlusta á hann í spjaldtölvum, en hann er eitt norrænna áhersluverkefna Íslands á þessu ári. Spilunarlistinn er gefinn út viku í senn, þar sem norrænir tónlistarmenn og DJar velja lög með norrænum flytjendum.

© 2014 Kristján Czakó Visual ImpactHönnunarinnsetningin Contemporary Collected með 101 norrænum hönnunar- og nytjamunum á grænum vegg vakti mikla athygli og það kom fyrir að fólk var ekki alveg sammála um hvaðan vinsælir hlutir á borð við uppþvottabursta, berjatínu og skæri væru upphaflega. Svíar reyndust eiga burstann, Norðmenn voru höfundar berjatínunnar og Finnar skæranna.

© 2014 Kristján Czakó Visual Impact 

Íslensku nytjahlutirnir voru hinsvegar einstakir og enginn reyndi að eigna sér þá, en þar gat m.a. að sjá lopapeysu og lopasokka, pönnukökupönnu, laufabrauðsjárn, harðfisk, ópal og Vísnabókina. Af nýrri íslenskri hönnun gaf að líta ullarteppið „Selsham” frá Vík Prjónsdóttur, fiskibeinamódel Róshildar, álfestingar frá Hugdettu,  Herðubreið fjallapúða frá Markrún, leðurhálsband Stöku, Notknot púðann, prik eftir Brynjar Sigurðsson, veggspjaldið Líffærafræði leturs og rifgatað dagatal.

Tónlistarinnsetningin Syngjandi hljóðfæri með sérsmíðuðum hljóðfærum úr kommóðum, hjólabrettum og vaski var kynnt í samstarfi við Umeå, menningarhöfuðborg Evrópu á þessu ári, og var efnt til fjölda tónlistarvinnustofa með börnum. Verslunin 12 Tónar opnaði tímabundið útibú og kynnti íslenska og norræna tónlistardiska og vínylplötur í húsi sem byggt var sérstaklega utan um útibúið. Hinu megin veggjar kynnti bókabúðin Do you read me? í Berlín nokkra tugi nýlegra norrænna bóka og lífsstílstímarita fyrir gestum. Katrin Greiling var sýningarstjóri í Felleshus og hélt vel utan um sýningarnar. 

Þetta er heilmikil upptalning enda eru skapandi greinar orðnar miklar að umfangi, samkvæmt kortlagningu á Íslandi velta þær yfir 200 milljörðum á hverju ári og veita yfir tíu þúsund manns beina atvinnu að ógleymdum þeim sem tengjast þeim óbeint. Þýskaland er einn mikilvægasti markaðurinn fyrir íslenska og norræna menningu og með Play Nordic hátíðinni tókst okkur í sendiráðinu í Berlín að slá tvær flugur í einu höggi; Að sinna public diplomacy fyrir öll Norðurlöndin og í leiðinni að skapa tækifæri og tengsl fyrir á fimmta tug íslenskra hönnuða, tónlistarmanna og fyrirtækja í skapandi greinum.

Nánari upplýsingar er að finna á: 

http://studiogreiling.com/Contemporary-Collected-no-3-1

http://www.play-nordic.com

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta