Hoppa yfir valmynd
31. október 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Efling öldrunarhjúkrunar - þarfir næstu kynslóða

Margrét Björnsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu gæða og forvarna, flutti ávarp fyrir hönd Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra á hjúkrunarþingi 2014 sem haldið var á Hótel Natura í Reykjavík 31. október 2014.

Ávarp heilbrigðisráðherra

Heil og sæl öll og til hamingju með glæsilegt hjúkrunarþing 2014 þar sem öldrunarhjúkrun og efling hennar er í brennidepli. Þetta er sannarlega brýnt málefni þar sem mikil eftirspurn er eftir faglegri umræðu, stefnu og framtíðarsýn, ekki síst í ljósi þess að þjóðin eldist og þörfin fyrir öldrunarþjónustu eykst að sama skapi. Það er því ánægjulegt að hjúkrunarfræðingar taki  þetta málefni  til  umfjöllunar enda gegnir stéttin  veigamiklu  hlutverki  í öldrunarþjónustunni.

Áður en lengra er haldið ber ég ykkur góða kveðju Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra sem hafði því miður ekki tök á að vera hér í dag – en ég mæli fyrir munn hans.

Við  þekkjum öll hversu mikilvægt það  er fyrir fagfólk sem starfar á sama vettvangi að hittast til að miðla og deila reynslu sinni og þekkingu, líkt og hér í dag. Í dagsins amstri gefst oft ekki nægilegt tóm til þess að kafa djúpt í fagleg málefni, né heldur að taka flugið til að skoða heildarmyndina og fá þannig betri yfirsýn, bæði í tíma og rúmi. Því eru svona dagar afar kærkomnir.

Öldrun þjóða er staðreynd sem þarf ekki að koma neinum á óvart, hvorki hér né annars staðar, enda ekki um sérlega flókna framreikninga að ræða. Þar sem auðvelt er að sjá þessa þróun fyrir, ber okkur líka að búa í haginn þannig að samfélagið geti tekist á við þau verkefni sem óhjákvæmilega fylgja breyttri aldurssamsetningu með fjölmennum eldri kynslóðum.

Stundum mætti ætla af umræðunni að hér sé ekki um þróun að ræða, heldur einhverja ógn sem bíður handan við hornið og muni skella á okkur skyndilega. Svo er auðvitað ekki. Þetta er þróun sem er þegar hafin, og tengist bættum  lífskjörum þjóðarinnar og betri heilbrigðisþjónustu – og þetta er þróun sem þegar hefur verið mætt á ýmsan hátt með breyttum áherslum í öldrunarþjónustu eins og þið  þekkið flest. Aldursþróunin er þó ekki rót breytinganna, heldur breytt sýn á þjónustu við fólk sem ekki er fært um að búa sjálfstæðu lífi án aðstoðar og stuðnings.

Ímyndum okkur hvernig staðan væri ef viðhorf til öldrunarþjónustu væru þau sömu og fyrir þrjátíu til fjörutíu árum þegar sjálfsagt þótti að fólk flytti inn á stofnun ef það var ekki fullfært um að annast sig sjálft að öllu leyti. Og jafnvel þótt svo væri þótti ekkert einkennilegt við það að fólk sækti um pláss á stofnun, eins og þá var sagt, einungis vegna aldurs, jafnvel þótt ekkert amaði að. Lengi vel var stofnanavist eina svarið þegar mæta þurfti þörfum fólks fyrir einhverja aðstoð og þjónustu. – Og auðvitað var það ekki fjarri lagi meðan aðrar lausnir voru ekki í boði.

Við myndum þurfa ærið mörg dvalar- og hjúkrunarrými í dag ef þröskuldurinn inn á þau hefði ekki hækkað svo um munar, samhliða því sem byggð hefur verið upp margvísleg þjónusta og úrræði til að styðja fólk til sjálfstæðrar búsetu á eigin heimili sem lengst.

Drifkraftur þeirra breytinga sem orðið hafa í öldrunarþjónustunni með áherslu á að fólk búi heima er ekki fjárhagslegur – heldur hugmyndafræðilegur. Það segir sig hins vegar sjálft að hjúkrunarheimili eru dýr úrræði og því slæm fjárfesting þegar aðrar leiðir eru færar og jafnframt betur til þess fallnar að þjóna þörfum og óskum hinna öldruðu.

Þótt aukin kostnaðarvitund hafi ekki stýrt þróun öldrunarþjónustunnar og þeim áherslubreytingum sem orðið hafa á liðnum árum, þá er alveg ljóst að kröfur um hagkvæmni verða æ ríkari og þannig er það raunar með alla opinbera þjónustu. Við höfum úr takmörkuðum fjármunum að spila og verðum að nýta þá sem best í þágu þess fólks sem þarf á þjónustu að halda.

Ég veit að það fer um fólk þegar rætt er um takmarkað fjármagn, aðhaldskröfur og útsjónasemi, enda hefur verið langt gengið í þeim efnum og vart hægt að sjá að frekari sparnaður sé mögulegur eða forsvaranlegur. – Um það er heldur ekki að ræða. Það er heildarmyndin sem þarf að skoða, uppbygging og skipulag kerfisins og hvort þar liggi ónýtt tækifæri til þess að veita þjónustu á einhvern annan hátt  - eða gera eitthvað öðru vísi.

Þegar teknar eru ákvarðanir um þjónustu, hverjir eigi að fá þjónustu og í hve miklum mæli skiptir geysilega miklu máli að taka réttar ákvarðanir þannig að þjónustan sé hvorki of né van, heldur hæfi nákvæmlega þörfum þess sem á í hlut. Það er sóun að veita ónauðsynlega þjónustu – og það getur einnig verið þjóðhagslega dýrkeypt að veita fólki ekki þá þjónustu sem það þarfnast auk þess sem slíkt getur einnig falið  í  sér vanrækslu. Þetta er vandrataður vegur og því er svo mikilvægt að byggja upp og þróa fagleg matskerfi, líkt og upphafsmatið sem nú er verið að  taka í notkun hjá allnokkrum sveitarfélögum– þar sem byggt er á RAI-kerfinu sem Ingibjörg Hjaltadóttir mun eflaust ræða um í erindi sínu hér á eftir.

Það  má geta þess hér að  í  síðasta mánuði  þá ákvað heilbrigðisráðherra , að fenginni tillögu stjórnar Framkvæmdasjóðs aldraðra, að veita allt að 20.000.000 kr. úr Framkvæmdasjóði aldraðra til tveggja verkefna á vegum Embættis landlæknis, annars vegar verkefnis sem snýr að þróun miðlægs gagnagrunns fyrir umsóknir og stöðu biðlista, sem kæmi í stað núverandi færni- og heilsumatskerfa, og hins vegar til verkefnis um samþættingu RAI- kerfa við gagnagrunninn þannig að upplýsingar sem skráðar hafa verið annars staðar nýtist við gerð RAI mata.

Það  er ljóst að faglegt og samræmt mat á þjónustuþörf skiptir miklu máli, bæði til að tryggja fólki þjónustu í samræmi við þarfir þess – og eins til að nýta fjármuni til þjónustunnar sem best. Ég sé að þjónustustýring innan heilsugæslunnar verður til umræðu á þinginu síðar í dag. Markvissri þjónustustýringu er víðast beitt í heilbrigðiskerfum þeirra þjóða sem við viljum bera okkur saman við og þykir mikilvægt og nauðsynlegt stjórntæki sem beinir fólki rétta leið í kerfinu og dregur úr sóun.

Mig langar að  lokum til að  víkja hér að  nokkrum  atriðum  sem  snúa ýmist beint eða óbeint að öldruðum.

Þið hafið eflaust flest eða öll heyrt um áætlunina Betri heilbrigðisþjónustu sem heilbrigðisráðherra kynnti í byrjun þessa árs – en hún felur í sér allmörg stór umbótaverkefni í heilbrigðiskerfinu. Innleiðing þjónustustýringar er eitt þessara verkefna. Innleiðing hreyfiseðla er einnig hluti áætlunarinnar þar sem hreyfingu er beitt í meðferðarskyni og í forvarnarskyni á markvissan hátt. Um gildi þess og ávinning þegar vel tekst til þarf ekki að fjölyrða í þessum hópi.

Rafræn sjúkraskrá, samtengd fyrir allt heilbrigðiskerfið á landsvísu er verkefni sem unnið hefur verið  að til margra ára, en þeirri vinnu hefur miðað of hægt. Nú hefur stóraukinn kraftur verið settur í verkefnið með auknum fjármunum og uppskeran af því er þegar að koma í ljós. Það yrði langt mál að telja í einstökum liðum ávinninginn af heildstæðu rafrænu sjúkraskrárkerfi fyrir allt heilbrigðiskerfið og líklega óþarfi  í  þessum  hópi. En í stuttu máli þá eykur það öryggi heilbrigðisþjónustunnar, stuðlar að auknum gæðum, dregur úr tví- og margverknaði og bætir þar með nýtingu fjár.

Það urðu heilmikil tímamót fyrr í þessum mánuði þegar heilbrigðisupplýsingakerfið VERA var opnað við Heilsugæslustöðina í Glæsibæ, en VERA tengist vinnu Embættis landlæknis á sviði rafrænnar sjúkraskrár eins og kunnugt er. VERA er upphafið að ,,mínum síðum“ fyrir almenning, þar sem einstaklingar geta skráð sig á öruggan hátt inn á svæði sem geymir ýmsar upplýsingar sem varða heilsufar þeirra, lyfjanotkun og samskipti við heilbrigðiskerfið. Fyrir árslok verður VERA orðin liður í þjónustu allra starfsstöðva Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og snemma á næsta ári á öllum heilbrigðisstofnunum landsins. Með VERU gefst almenningi stóraukið tækifæri til að fylgjast með og vera virkir þátttakendur í eigin meðferð, en það er þekkt staðreynd að því  betur upplýstir sem sjúklingar eru um meðferðina, þeim mun betri er meðferðarheldni þeirra, árangurinn verður meiri og hættur á mistökum minni.

Það er framþróun af þessu tagi sem framtíð velferðarþjónustunnar, ekki síst heilbrigðisþjónustunnar veltur á og þarna eru tækifæri sem mikilvægt er að nýta. Sennilega eru þó stærstu tækifærin fólgin í lýðheilsu þjóðarinnar – og leiðum til að bæta hana. Það er óþarfi að rekja fyrir ykkur þá fjölmörgu lífsstílstengdu sjúkdóma sem hægt er að draga verulega úr með breyttum lífsstíl og bættri lýðheilsu. Ég nefni hér aðeins eitt atriði–offitu - sem  er veruleg heilsufarsógn hér á landi líkt og svo víða annars staðar. Takist að snúa slæmri  þróun við á þessu sviði getur það dregið mjög úr álagi á heilbrigðiskerfið þegar fram líða stundir, auk þess að  bæta heilsu og lífsgæði  fólk.

Góðir gestir.

Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri. Ég ítreka að lokum kveðjur ráðherra til ykkar og óska ykkur góðs og gefandi hjúkrunarþings.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta