Hoppa yfir valmynd
3. nóvember 2014 Utanríkisráðuneytið

Rætt um endurskoðun fríverslunarsamnings EFTA við Kanada

Möguleg endurskoðun á núgildandi fríverslunarsamningi EFTA-ríkjanna og Kanada var rædd á fundi ríkjanna sem fram fór í Genf 29.-30. október. Samningurinn er frá 2009 en stefnt hefur verið að því að útvíkka hann svo að hann nái til fleiri  sviða, s.s. þjónustuviðskipta, um leið og fríverslunarviðræðum ESB og Kanada lyki. Á fundinum var m.a. rætt hvernig tryggja megi EFTA ríkjunum sömu viðskiptakjör og Evrópusambandinu gagnvart Kanada.


Kanada og Evrópusambandið luku nú í október viðræðum um gerð fríverslunarsamnings sem verður enn yfirgripsmeiri en gildandi samningur EFTA-ríkjanna við Kanada. Í því ljósi óska EFTA-ríkin eftir því að útvíkka núgildandi samning til þess að tryggja fyrirtækjum sínum sömu viðskiptakjör og markaðsaðgang í Kanada og aðildarríkjum Evrópusambandsins. Núgildandi fríverslunarsamningur Kanada og EFTA tekur einvörðungu á vöruviðskiptum en áhugi er á því að þar undir falli einnig m.a. þjónustuviðskipti, fjárfestingar, opinber innkaup og vernd hugverkaréttar.

Ákveðið var að EFTA-ríkin og Kanada muni funda aftur fyrri hluta ársins 2015.

Viðskipti Íslands og Kanada hafa aukist allnokkuð síðustu ár;  útflutningur frá Íslandi til Kanada jókst um 31% milli áranna 2012 og 2013 eða úr 3,5 í 4,6 milljarða. Útflutningur á sjávarafurðum jókst um 54% að magni. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta