Breyting á reglugerð um skoðanir ferja til umsagnar
Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu drög að reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 743/2001, um skoðanir ekjuferja og háhraðafarþegafara í millilandasiglingum, með síðari breytingum. Unnt er að senda athugasemdir og ábendingar um drögin á netfangið [email protected] til og með 17. nóvember næstkomandi.
Með bréfum, dags. 5. apríl og 8. júlí 2013, hóf Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) mat á innleiðingu í íslenskan rétt á tilskipun ráðsins 1999/35/EB frá 29. apríl 1999 um kerfi lögboðinna skoðana til að stuðla að öruggum rekstri ekjuferja og háhraðafarþegafara í áætlunarferðum. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 179/1999.
Í kjölfar bréfaskipta milli ESA og íslenskra stjórnvalda gerði ESA ákveðnar athugasemdir við innleiðingu tilskipunarinnar og var reglugerðin því tekin til skoðunar og breytingardrög þessi samin en markmið þeirra er að tryggja fullt samræmi milli íslenskra reglna og tilskipunarinnar.