Hoppa yfir valmynd
5. nóvember 2014 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Frumvarpsdrög um flutning netöryggissveitar til almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra til umsagnar

Drög að lagafrumvarpi um flutning netöryggissveitar frá Póst- og fjarskiptastofnun til almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra er nú til umsagnar hjá ráðuneytinu. Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að starfssvið sveitarinnar verði víkkað. Unnt er að senda umsagnir um frumvarpið á netfangið [email protected] til og með 17. nóvember næstkomandi.

Frumvarpinu er ætlað að tryggja aukið öryggi á þessu sviði og tryggja að forvarnir, viðbrögð og áherslur er varða netöryggi séu í samræmi við það sem best gerist í nágrannalöndum okkar. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um almannavarnir, nr. 82/2008, sem fela í sér að netöryggissveit Póst- og fjarskiptastofnunar, CERT-ÍS, flytjist til almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og nefnist Netöryggissveit almannavarna. Jafnframt er starfssvið sveitarinnar víkkað þannig að sveitinni er framvegis ætlað að stuðla að því að fyrirbyggja, draga úr og bregðast við hættu vegna netárása eða hliðstæðra öryggisatvika í net- og upplýsingakerfum mikilvægra samfélagslegra innviða sem falla undir starfssvið sveitarinnar. Skal hún geta sinnt því hlutverki allan sólarhringinn alla daga vikunnar. Með flutningi sveitarinnar verður auðveldara að nýta fyrirliggjandi skipulag almannavarna til að glíma við alvarlega netvá.

Til þess að mæta kostnaði ríkissjóðs af starfsemi Netöryggissveitar almannavarna með hliðsjón af auknu hlutverki sveitarinnar er gert ráð fyrir því að lagt verði netöryggisgjald á tiltekna rekstararaðila mikilvægra samfélagslegra innviða. Frumvarpið var samið í innanríkisráðuneytinu að höfðu samráði við Póst- og fjarskiptastofnun og ríkislögreglustjóra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta