Hoppa yfir valmynd
5. nóvember 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Norrænir ráðherrar jafnréttismála kalla eftir þátttöku karla í baráttunni fyrir auknu jafnrétti

Fánar Norðurlanda. Ljósmynd: Johannes Jansson/norden.org
Fánar Norðurlanda. Ljósmynd: Johannes Jansson/norden.org

Á vettvangi norræns samstarfs hefur verið lögð áhersla á aukna þátttöku og ábyrgð karla og drengja í baráttunni fyrir auknu jafnrétti. Norræna ráðherranefndin um jafnréttismál hefur því ákveðið að skipaður verði starfshópur sem skili nefndinni tillögum um norrænar aðgerðir um hvernig auka megi þátttöku karla og drengja í starfi að auknu kynjajafnrétti.

Á fundi Norrænu ráðherranefndarinnar um jafnréttismál í Kaupmannahöfn á mánudaginn fór fram sérstök umræða um karla, drengi og jafnréttismál. Ingólfur V. Gíslason, lektor í félagsfræði og sérfræðingur í jafnréttismálum, var sérstakur gestur fundarins. „Norðurlöndin raða sér í fimm efstu sætin á lista Alþjóða efnahagsráðsins um kynjajafnrétti og vilja halda áfram að sækja fram.Til þess að svo megi vera er nauðsynlegt að auka þátttöku karla og drengja í baráttunni fyrir jafnrétti og tryggja að aðgerðir taki mið af sjónarmiðum beggja kynja,“ segir Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra og formaður Norrænu ráðherranefndarinnar um jafnréttismál.  

Ný samstarfsáætlun 

Í nýrri samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um jafnréttismál fyrir árin 2015–2018, sem samþykkt var þann 29. október síðastliðinn á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi, er sérstök áhersla lögð á að sjónarmið karla og drengja séu samþætt öllum meginsviðum áætlunarinnar.

„Það er umhugsunarvert að karlmenn eru ekki eingöngu í meirihluta þeirra sem skipa valda- og áhrifastöður heldur eru þeir einnig í meirihluta þeirra sem eru utangarðs í norrænum samfélögum. Kyngreindar upplýsingar um glæpi, refsingar og fjölda fanga staðfesta þetta.  Að mínu mati þurfum við að skoða nánar hvernig hefðbundnar kynjaímyndir hafa neikvæð áhrif á líf drengja og karla,“ sagði Manu Sareen, ráðherra jafnréttismála í Danmörku, en Danir taka við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á næsta ári. „Ég bind vonir við að aukin þátttaka karla í stefnumótandi umræðu um jafnréttismál hafi þau áhrif að verkaskiptingu á heimilum og umönnun barna verði í framtíðinni jafnar skipt á milli kynja en raunin er í dag. Einnig er mikilvægt að foreldrar deili forræði yfir börnum sínum eftir skilnað og þar eigum við enn mikla vinnu fyrir höndum,“ sagði Manu Sareen.

Frá kvenfrelsisbaráttu til áherslu á jafnrétti fyrir bæði kynin

Í umræðum norrænu ráðherranna var reifað hvernig áherslur hefðu breyst síðastliðna áratugi. Áður fyrr hafi verið lögð áhersla á þátttöku karla í baráttunni fyrir bættri stöðu og auknum réttindum kvenna en í dag væri horft til aukinnar velferðar beggja kynja, aðgerða til að auka hlut karla í umönnunar- og kennslustörfum sem og þess hvernig karlar geti sjálfir borið meiri ábyrgð þegar kemur að samhæfingu fjölskyldu- og atvinnulífs. 

„Jafnari verkaskipting kynja inni á heimilum styrkir stöðu kvenna á vinnumarkaði og styrkir karla í umönnunarhlutverkinu.  Til að vinna gegn kynjaskiptingu starfa á vinnumarkaði er brýnt að vekja áhuga drengja á störfum sem tengjast umönnun og kennslu. Við þurfum að vinna gegn staðalmyndum um hvað við teljum vera „viðeigandi“ starfsvettvang fyrir konur og karla en sú vinna mun skila sér í auknum starfsmöguleikum beggja kynja og er ein meginforsenda þess að hægt sé að uppræta kynbundinn launamun sem er ein brýnasta áskorun á sviði jafnréttismála í dag. Kynbundið ofbeldi og ofbeldi í nánum samböndnum er enn fremur mikið vandamál sem eingöngu er hægt að takast á við með kerfislægum breytingum og gagnrýnni umræðu um kynhlutverk karla og kvenna,”segir Eygló Harðardóttir.

Norrænir ráðherrar jafnréttismála

Mynd frá vinstri: Mikael Kristensen (Grænland) ráðuneytisstjóri, Ulla-Maija Rajakangas (Finnland) ráðuneytisstjóri, Solveig Horne (Noregur), formaður Norrænu ráðherranefndarinnar, Eygló Harðardóttir (Ísland), Åsa Regnér (Svíþjóð) og Manu Sareen (Danmörk).

Sjá einnig

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta