Viðurkenning veitt á degi gegn einelti
Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra veitti í dag Magnúsi Stefánssyni og Páli Óskari Hjálmtýssyni viðurkenningu vegna jákvæðra skilaboða gegn einelti til samfélagsins.
Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra veitti í dag Magnúsi Stefánssyni og Páli Óskari Hjálmtýssyni viðurkenningu vegna jákvæðra skilaboða gegn einelti til samfélagsins. Viðurkenningin var veitt við hátíðlega athöfn í Laugarnesskóla en þar var haldið upp á daginn með skemmtilegri og fræðandi dagskrá.
Fyrir rúmu ári tóku þeir Páll Óskar og Magnús höndum saman og framleiddu heimildarmynd um æsku Páls Óskars þar sem fjallað er um einelti sem hann varð fyrir í grunnskóla. Í framhaldinu gerðu þeir fræðsluverkefnið; Þolandi og gerandi, þar sem þeir ræða við grunnskólabörn og miðla reynslu sinni sem þolandi og gerandi eineltis. Markmið verkefnisins er að auka skilning á orsökum og afleiðingum eineltis, draga úr einelti og vera verkfæri fyrir kennara og foreldra til að fyrirbyggja einelti.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið telur að þetta framtak Magnúsar og Páls endurspegli vel markmið ríkisstjórnarinnar um að leitast við að auðvelda börnum og ungmennum að fóta sig, meðal annars með áherslu á aðgerðir gegn einelti og að allir í samfélaginu búi við öryggi og virðingu.
Viðurkenningin sem þeir félagar hlutu er listaverk eftir Koggu sem heitir Egg snjófuglsins og við sendum þeim innilegar hamingju óskir í tilefni af viðurkenningunni
Í fyrra hlaut Þorlákur Helgason, framkvæmdastjóri Olweusaráætlunarinnar gegn einelti viðurkenninguna fyrir ötult starf gegn einelti í skólasamfélaginu og árið 2012 fékk kvennalandsliðið í knattspyrnu þessa viðurkenningu fyrir jákvæð skilaboð gegn einelti og mikilvægi þess að fagna fjölbreytileikanum.