Ríkir sameiginlegir hagsmunir
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra átti í dag fund með japönskum starfsbróður sínum, Fumio Kishida, í Tókýó en ráðherra heimsækir Japan dagana 10.-13. nóvember. Ræddu ráðherrarnir áratugalöng farsæl samskipti ríkjanna, viðskiptamál, aukið samstarf Íslands og Japans um málefni norðurslóða og svæðisbundin alþjóðamál, m.a. í Asíu.
Utanríkisráðherra lagði áherslu á samstarf ríkjanna á sem breiðustum grunni, þjóðirnar eigi margt sameiginlegt. Bæði löndin liggi á flekaskilum þar sem jarðhræringar hafa áhrif á líf íbúanna, þau búi yfir auðlindum svo sem jarðhita og sjávarfangi og bæði leggi áherslu á sjálfbærni náttúruauðlinda. Fagnaði utanríkisráðherra þeim skrefum sem Japan hefði stigið að undanförnu í gerð fríverslunarsamninga og taldi mikilvægt að Japan horfði einnig til þess að semja við þau EFTA ríki sem ekki væri þegar samningur við. Þá væri mikilvægt að ríkin gerðu sem fyrst með sér loftferðasamning til að styðja við vöxt í ferðaþjónustu.
Utanríkisráðherra Japan var jákvæður í garð samstarfs á fleiri sviðum og sagði Ísland beita friðarsinnaðri utanríkisstefnu. Minntist hann sérstaklega á ræðu ráðherra á allsherjarþingi þar sem Gunnar Bragi fór yfir málefni öryggisráðsins í Sameinuðu þjóðunum.
Ísland og Japan munu fagna 60 ára afmæli stjórnmálasambands 2016 og að því tilefni bauð utanríkisráðherra starfsbróður sínum í heimsókn til Íslands.
Að loknum fundi ráðherranna gáfu þeir út sameiginlega yfirlýsingu þar sem fjallað er um eflingu á samstarfi ríkjanna á ýmsum sviðum. Lögð er áhersla á að ríkin vinni nánar saman innan alþjóðlegra stofnana, efli samstarf sitt í málefnum norðurslóða, styrki menningarsamstarf auk þess sem ríkin skoði leiðir til frekari samvinnu á sviði orkumála með sérstakri áherslu á jarðhita. Einnig verði leitað leiða til að efla enn frekar viðskipti ríkjanna auk þess sem ákveðið er að skoða fýsileika þess að ganga til samninga til að greiða fyrir heimildum ungs fólks til ferða og atvinnu á milli ríkjanna.
Fyrr um daginn heimsótti utanríkisráðherra einnig japanska þingið og átti fund með Shinako Tsuchiya formanni vináttufélags Íslands og Japans á þinginu og nokkrum þingmönnum en Shinako er einnig formaður utanríkismálanefndar neðri deildar þingsins. Á fundi sínum ræddu þau m.a. áherslur Íslands um að efla viðskipti og fjárfestingar milli ríkjanna, stuðning við menningar- og menntasamstarf og um málefni norðurslóða.