Upphaf Biophiliu kennsluverkefnisins
Biophilia kennsluverkefnið er eitt af formennskuverkefnum Íslands í Norrænu ráðherranefndinni á yfirstandandi ári. Biophilia er viðamikið kennsluverkefni sem byggir á víðtækri þátttöku fræðimanna, vísindamanna, listamanna, kennara og nemenda á öllum skólastigum. Það byggist á því að nota sköpun sem menntunar- og rannsóknaraðferð þar sem náttúruvísindi, tónlist og tækni eru tengd saman á nýstárlegan hátt. Verkefnið er til þriggja ára; árið 2014 fer í undirbúning, árið 2015 í framkvæmd á Norðurlöndunum og árið 2016 í mat og eftirfylgni.
Fimmtudaginn 13. nóvember verður Biophilia kennsluverkefninu hleypt formlega af stokkunum. Dagana 13-14. nóvember hittast fulltrúar frá öllum Norðurlöndunum hér á Íslandi til að ræða um aðferðafræði Biophiliu, tengja hana við fjölbreyttar kennsluaðferðir og hefja samstarf milli landanna um þróun verkefnisins. Einnig verður verkefnið kynnt almennt fyrir hópunum og unnið markvisst með þeim að undirbúningi framkvæmdarinnar á þeirra svæðum.