Utanríkisráðherra ræðir áhuga Brasilíu á fríverslun á fundi EFTA-ráðherra
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tók í dag þátt í ráðherrafundi EFTA-ríkjanna í Genf. Staða fríverslunarviðræðna EFTA var meginefni fundarins og ræddu ráðherrarnir um möguleika á viðræðum við ný ríki. Þá áttu ráðherrarnir fund með Michael Punke, vara-viðskiptafullrúa Bandaríkjanna um stöðu fríverslunarviðræðna Bandaríkjanna við Evrópusambandið.
Á fundinum upplýsti Gunnar Bragi ráðherra hinna EFTA-ríkjanna um viðræður sínar við utanríkisráðherra Brasilíu, Luiz Alberto Figuereido í október sl. en þeir ræddu möguleikann á að hefja fríverslunarviðræður milli EFTA-ríkjanna og MERCOSUR-viðskiptabandalagsins, sem Argentína, Brasilía, Paragvæ, Úrúgvæ og Venesúela eru aðilar að. EFTA og MERCOSUR undirrituðu samstarfsyfirlýsingu árið 2000 og kvaðst Figuerido ætla að kalla saman sameiginlega nefnd þeirra þegar Brasilía tekur við formennsku í bandalaginu í byrjun næsta árs.
EFTA-ráðherrarnir lýstu eindregnum vilja til að ljúka fríverslunarviðræðum við Indland við fyrsta tækifæri. Farið var yfir stöðuna í viðræðum EFTA við Víetnam og Malasíu en samningalotur í viðræðum við þau er ýmist nýlokið eða á næsta leiti. Staðfest var að þráðurinn yrði ekki tekinn upp að nýju í viðræðum EFTA við tollabandalag Rússlands, Hvíta-Rússlands og Kasakstan, sem var frestað ótímabundið fyrr á árinu, fyrr en friðvænlegar horfi í Úkraínu.
Ráðherrarnir lýstu ánægju sinni með að fríverslunarviðræður við Filippseyjar séu að hefjast og ákváðu að EFTA skyldi hefja viðræður við Georgíu. Þeir voru sammála um að efla tengsl EFTA og ASEAN, samtaka ríkja í Suðaustur Asíu, svo og við einstök Afríkuríki, s.s. Nígeríu. Þá voru þeir á einu máli um mikilvægi þess að útvíkka gildandi fríverslunarsamninga við Tyrkland, Kanada og Mexíkó.
Þá funduðu þeir einnig með Mariu Luisiu Flores, varaviðskiptaráðherra Gvatemala, í tilefni þess að nýlega lauk samningaviðræðum um aðild Gvatemala að fríverslunarsamningi EFTA og Mið-Ameríkuríkjanna. Á fundinum var ákveðið að stefna að því að ljúka sem fyrst formlegri aðild Gvatemala að áðurnefndum samningi, en fyrir eiga Kostaríka og Panama aðild að samningnum, auk EFTA-ríkjanna.
Fundinn sátu auk utanríkisráðherra; Johann Schneider-Ammann, efnahagsráðherra Sviss, Monica Mæland, viðskiptaráðherra Noregs og Aurelia Frick, utanríkisráðherra Liechtenstein.