Birgir Jakobsson skipaður landlæknir
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur skipað Birgi Jakobsson í embætti landlæknis til fimm ára, frá 1. janúar 2015. Birgir hefur um langt skeið sinnt stjórnunarstörfum við ýmis sjúkrahús í Svíþjóð, síðast sem forstjóri Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi.
Fimm umsóknir bárust um embætti landlæknis en umsóknarfrestur rann út 31. október síðastliðinn. Sérstök nefnd sem starfar á grundvelli 9. gr. laga um heilbrigðisþjónustu mat hæfni umsækjenda. Niðurstaða hennar var að tveir umsækjendanna væru hæfastir og var Birgir annar þeirra.
Samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu skal landlæknir hafa sérfræðimenntun í læknisfræði, þekkingu á sviði lýðheilsu og víðtæka reynslu eða menntun á sviði stjórnunar.
Í umsögn hæfnisnefndar um Birgi kemur fram að hann hefur yfirgripsmikla stjórnunarreynslu af sjúkrahúsum í Svíþjóð sem stjórnandi á mismunandi stjórnunarstigum í 24 ár. Sérgrein Birgis er barnalækningar og árið 1988 lauk hann doktorsprófi við Karolinska Institutet. Hann gegndi um árabil yfirlæknisstöðu á barnadeild Huddinge sjúkrahússins í Stokkhólmi, árið 2003 tók hann við starfi sjúkrahússtjóra við Capio St. Görans sjúkrahússins í Stokkhólmi og frá árinu 2007 hefur hann verið forstjóri Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi en þar er hann nýhættur störfum.
Hæfnisnefndin getur þess í umsögn sinni að Birgir hafi mikla reynslu af breytingastjórnun og hæfileika til að fá fólk til að vinna með sér að breytingum. Hann hafi meðal annars verið í fararbroddi við endurskipulagningu og stefnumótun á sjúkrahúsþjónustu í Stokkhólmi og við sameiningu Karolinska og Huddinge sjúkrahúsanna og tekið þátt í umfangsmikilli stefnumótun tengdri þeirri saminingu. Birgir á að baki nær aldarfjórðungs reynslu sem stjórnandi á stórum heilbrigðisstofnunum og hefur náð eftirtektarverðum árangri í þeim störfum sínum. Þá hefur hann verið virkur í fræðasamfélaginu og liggja eftir hann á þriðja tug greina í vísindatímaritum, segir meðal annars í umsögn hæfnisnefndarinnar.
Birgir tekur við embætti landlæknis af Geir Gunnlaugssyni sem hefur gegnt því síðastliðin fimm ár.