Grænum skrefum í ríkisrekstri hleypt af stokkunum
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Landmælingar Íslands og Skipulagsstofnun eru fyrstu ríkisstofnanirnar til að aðlaga starfsemi sína Grænum skrefum í ríkisrekstri. Tíu aðrar stofnanir hafa skráð sig til leiks í verkefninu, sem hleypt var af stokkunum á Grand hótel Reykjavík í gær.
Græn skref í ríkisrekstri snúast um að efla vistvænan rekstur ríkisins með kerfisbundnum hætti. Aðgerðirnar miða einkum að venjulegri skrifstofustarfsemi og hafa jákvæð áhrif á umhverfið, bæta starfsumhverfi starfsmanna og draga úr rekstrarkostnaði.
Þær aðgerðir sem Grænu skrefin ná til snerta sex þætti, þ.e. innkaup, miðlun og stjórnun, fundi og viðburði, flokkun og minni sóun, rafmagn og húshitun og loks samgöngur. Skrefin eru innleidd í fjórum áföngum, en fimmta og síðasta skrefið sýnir helstu aðgerðir sem þarf að innleiða til að byggja upp umhverfisstjórnunarkerfi.
Gestir á kynningu Grænna skrefa í ríkisrekstri voru áhugasamir.
Græn skref í ríkisrekstri byggja á Grænum skrefum Reykjavíkurborgar þar sem rúmlega 100 vinnustaðir hafa tekið þátt í verkefninu. Sterkar vísbendingar eru um að vistvænni rekstur hafi ekki aðeins jákvæð áhrif á umhverfi og starfsaðstæður heldur getur hann einnig dregið úr rekstrarkostnaði. Þetta endurspeglast m.a. í grænu bókhaldi ríkisstofnana, þar sem safnað er saman upplýsingum um hvernig innkaupum á rekstrarvöru og þjónustu er háttað m.t.t. þeirra þátta sem valda neikvæðum umhverfisáhrifum. Grænt bókhald áranna 2011 – 2013 sýnir m.a. að verulega dregur úr pappírsnotkun þeirra stofnana sem skila grænu bókhaldi. Hið sama gildir um akstur og úrgang á sama tíma og hlutfall umhverfismerktra ræstiefna eykst til muna.
Nánari upplýsingar um Græn skref í ríkisrekstri má finna á heimasíðu verkefnisins, www.graenskref.is