Utanríkisráðherrar Íslands og Kanada funda
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og John Baird, utanríkisráðherra Kanada, sem staddur er heimsókn á Íslandi, funduðu í Ráðherrabústaðnum í dag. Á fundinum ræddu ráðherrarnir ýmis mál, m.a. áhuga á auknum viðskiptum landanna og áætlanir um útvíkkun á fríverslunarsamningi EFTA og Kanda, svo að hann nái til fleiri sviða en vöruviðskipta, s.s. þjónustuviðskipta, fjárfestinga, verndunar hugverkaréttinda og opinberra innkaupa. Einnig ræddu þeir möguleika á að gera samning á milli landanna um að greiða fyrir heimildum ungs fólks til ferða og atvinnu á milli ríkjanna.
Ráðherrarnir ræddu samstarf í öryggis- og varnarmálum, en kanadíski flugherinn hefur í tvígang tekið þátt í loftrýmisgæslu á Íslandi og er áframhald á þeirri þátttöku nú í undirbúningi. Þá ræddu þeir öryggishorfur í Evrópu, m.a. í tengslum við ástandið í Úkraínu og uppgang hryðjuverkasamtakanna ISIS.
Þá ræddu þeir þróun á norðurslóðum, mikilvægt samstarf Íslands og Kanada á því sviði og undirbúning ráðherrafundar Norðurskautsráðsins sem haldinn verður í Iqaluit í Kanada í apríl 2015.
Gunnar Bragi nefndi sérstaklega þann mikla fjölda Íslendinga sem fluttist til Kanada í lok 19 aldar og sterkum tengslum þeirra við Ísland. Hann sagði íslensk stjórnvöld leggja áherslu á að rækta þessi tengsl, sem myndu vonandi nýtast í öðrum samskiptum landanna, bæði menningarlega, í viðskiptum, norðurslóðamálum og öðrum alþjóðamálum en einn afkomandi Vesturfaranna, öldungardeildarþingmaðurinn Janis Gudrun Johnson frá Manitoba, var með í föruneyti Baird.