Rauði krossinn á Íslandi fagnar 90 ára afmæli á alþjóðlega mannréttindadeginum
Rauði krossinn á Íslandi fagnar í dag 90 ára afmæli sínu á alþjóðlega mannréttindadeginum en samtökin voru stofnuð 10. desember 1924. Innanríkisráðuneytið óskar Rauða krossinum á Íslandi til hamingju með 90 ára afmælið og þakkar félaginu mikilvæg mannréttinda- og mannúðarstörf í þágu íslensks samfélags.
Í tilefni alþjóðlega mannréttindadagsins vekur innanríkisráðuneytið athygli á lögum nr. 115/2014 um Rauða krossinn á Íslandi og merki Rauða krossins, Rauða hálfmánans og Rauða kristalsins sem samþykkt voru á Alþingi þann 19. nóvember síðastliðinn.
Með lögunum er félaginu veitt viðurkenning stjórnvalda í samræmi við heit þess efnis sem samþykkt var á fundi alþjóðaráðs Rauða krossins og Rauða hálfmánans árið 2003. Með lagasetningunni hefur Alþingi með skýrum hætti kveðið á um stöðu Rauða krossins á Íslandi sem sjálfstæðs og óháðs félags sem starfi að mannúðarmálum í samræmi við Genfarsamningana frá 1949 og síðari viðbótarbókanir við þá og sem gegni stoðhlutverki gagnvart stjórnvöldum í mannúðarmálum.
Markmiðið með frumvarpinu er að tryggja það að merki félagsins njóti sérstakrar verndar og jafnframt að koma í veg fyrir misnotkun merkjanna. Lagasetninging felur því í sér að öðrum en Rauða krossinum á Íslandi, Alþjóðaráði Rauða krossins og Alþjóðasambandi landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans er óheimilt að nota nafn Rauða krossins, merki hans, og Rauða hálfmánans og Rauða kristalsins.