Utanríkisráðherra á ráðherrafundi þróunarsamvinnunefndar OECD
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra tók þátt í tveggja daga ráðherrafundi þróunarsamvinnunefndar OECD í París sem lauk í dag. Tilgangur nefndarinnar er að tryggja samræmd vinnubrögð ríkja í þróunarsamvinnu og veita faglegt aðhald. Ísland varð aðili að nefndinni á síðasta ári og er þetta fyrsti ráðherrafundurinn sem Ísland tekur þátt í sem aðildarríki.
Á fundinum var rætt um mál sem eru efst á baugi um framkvæmd alþjóðlegrar þróunarsamvinnu, þ. á m. breytingar á sameiginlegum alþjóðlegum viðmiðum fyrir opinbera fjárhagsaðstoð til þróunarríkja. Þá var sérstaklega fjallað um þróunaraðstoð til fátækustu ríkja heims, en á undanförnum árum hefur þessi aðstoð dregist saman. Gunnar Bragi hóf umræðurnar og lagði áherslu á nauðsyn þess að auka opinbera þróunaraðstoð til þeirra. Hann greindi einnig frá því að Ísland myndi áfram leggja áherslu á samstarf við fátæk ríki i Afríku.
Eftir ráðherrafundinn átti Gunnar Bragi fund með Erik Solheim, formanni þróunarsamvinnunefndar OECD. Á fundinum ræddu þeir gerð nýrrar þróunarsamvinnuáætlunar Íslands fyrir 2016 – 2019 sem fyrirhugað er að leggja fram á Alþingi í vor og ráðherra kynnti einnig fyrirætlanir um að öll starfsemi á sviði þróunarsamvinnu verði sameinuð í utanríkisráðuneytinu en hún er nú tvískipt, annars vegar er fjölþjóðleg þróunarsamvinna utanríkisráðuneytisins og hins vegar tvíhliða starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar. Í aðdraganda aðildar Íslands að þróunarsamvinnunefndinni lagði hópur sérfræðinga nefndarinnar til að íslensk stjórnvöld mætu skipulag og fyrirkomulag þróunarsamvinnu út frá því hvernig hámarks árangur og skilvirkni væru tryggð, með tilliti til smæðar landsins. Einnig ræddu þeir hvernig sérþekking Íslands á sviði fiskimála, jarðhita, jafnréttismála og landgræðslu geti nýst þróunarlöndum.