Innanríkisráðherra setur nýjar reglugerðir um 9 sýslumannsumdæmi og 9 lögregluumdæmi
Innanríkisráðherra hefur skrifað undir reglugerð um umdæmamörk sýslumannsembætta sem taka á gildi um næstu áramót þegar umdæmum sýslumannsembætta fækkar úr 24 í 9. Þá hefur ráðherra skrifað undir reglugerð um umdæmamörk lögregluembætta og verða umdæmin framvegis 9 en þau voru áður 15. Breytingarnar eru meðal þeirra umfangsmestu á umræddum embættum á síðari árum. Hefur undirbúningur staðið lengi yfir og stjórnvöld átt víðtækt samráð við fjölmarga aðila.
Í tengslum við breytingarnar á umdæmaskiptingu lögregluembættanna á Suðurlandi og Austurlandi ákvað innanríkisráðherra að láta gera úttekt á rekstrarforsendum lögreglunnar á Austurlandi. Niðurstaða úttektarinnar sýnir að nauðsynlegt er að efla lögregluna á Austurlandi. Því hefur verið ákveðið að styrkja lögregluembættið á Austurlandi um 10 milljónir króna. Í kjölfar þess hefur innanríkisráðherra ákveðið að lögregluembættið á Höfn skuli tilheyra umdæmi lögreglustjórans á Suðurlandi.
Ný lög um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði voru samþykkt á Alþingi í maí á þessu ári svo og breyting á lögreglulögum. Ný umdæmamörk embættanna eru ákveðin með reglugerðum eins og áskilið er í lögunum og þar er einnig kveðið á um hvar aðalstöð lögreglustjóra og aðalskrifstofa sýslumanns er í hverju umdæmi. Nýir lögreglustjórar og sýslumenn hafa verið skipaðir í embættin. Núverandi starfsstöðvar verða allar opnar áfram.
Umdæmi sýslumanna
Sýslumenn í umdæmunum 9 eru þessir:
- Þórólfur Halldórsson í umdæmi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.
- Ólafur K. Ólafsson í umdæmi sýslumannsins á Vesturlandi.
- Jónas Guðmundsson í umdæmi sýslumannsins á Vestfjörðum.
- Bjarni G. Stefánsson í umdæmi sýslumannsins á Norðurlandi vestra.
- Svavar Pálsson í umdæmi sýslumannsins á Norðurlandi eystra.
- Lárus Bjarnason í umdæmi sýslumannsins á Austurlandi.
- Anna Birna Þráinsdóttir í umdæmi sýslumannsins á Suðurlandi.
- Ásdís Ármannsdóttir í umdæmi sýslumannsins á Suðurnesjum.
- Lára Huld Guðjónsdóttir í umdæmi sýslumannsins í Vestmannaeyjum.
Hin nýju embætti munu taka til starfa mánudaginn 5. janúar 2015 en 2. janúar verða embættin lokuð vegna umfangsmikilla tölvukerfisbreytinga hjá ríkinu vegna umdæmabreytinganna.
Í reglugerðinni eru umdæmamörk skilgreind og tilgreint hvar eru aðalskrifstofur embættanna, hvar sýsluskrifstofur og hvar útibú.
Umdæmi lögreglustjóra
Landið skiptist í 9 lögregluumdæmi. Með lögreglustjórn fara lögreglustjórar sem hér segir:
- Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.
- Úlfar Lúðvíksson lögreglustjóri á Vesturlandi.
- Karl Ingi Vilbergsson lögreglustjóri á Vestfjörðum.
- Páll Björnsson lögreglustjóri á Norðurlandi vestra.
- Halla Bergþóra Björnsdóttir lögreglustjóri á Norðurlandi eystra.
- Inger L. Jónsdóttir lögreglustjóri á Austurlandi.
- Kjartan Þorkelsson lögreglustjóri á Suðurlandi.
- Ólafur Helgi Kjartansson lögreglustjóri á Suðurnesjum.
- Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri í Vestmannaeyjum.
Í reglugerðinni eru umdæmamörk skilgreind og tilgreint hvar eru aðalstöðvar lögreglustjóra og hvar aðrar starfsstöðvar.