Hoppa yfir valmynd
30. desember 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Styrkir úr þróunarsjóði innflytjendamála 2014 

Innflytjendaráð auglýsir eftir umsóknum um styrki úr þróunarsjóði innflytjendamála. Tilgangur sjóðsins er að efla rannsóknir og þróunarverkefni á sviði innflytjendamála með það að markmiði að auðvelda gagnkvæma aðlögun innflytjenda og íslensks samfélags. Að þessu sinni verður sérstök áhersla lögð á eftirfarandi viðfangsefni:

  • Þróunarverkefni sem styðja við félög sem hafa það að markmiði að efla virka þátttöku innflytjenda í samfélaginu og vinna að hagsmunamálum þeirra.
  • Þróunarverkefni sem styrkja nærþjónustu við innflytjendur á öllum stigum stjórnsýslunnar og í samfélaginu almennt.
  • Þróunarverkefni sem sýna hvernig fjölmenning eykur félagsauð og styrkir innviði samfélagsins.
  • Þróunarverkefni og rannsóknir sem beinast að auknum tækifærum innflytjenda til endurmenntunar og starfstengds náms og stuðla almennt að bættri stöðu þeirra á vinnumarkaði.

Styrkir verða veittir félögum, samtökum og opinberum aðilum og eru félags- og hagsmunasamtök innflytjenda sérstaklega hvött til þess að sækja um. Einstaklingum verða að jafnaði einungis veittir styrkir til rannsókna. Til ráðstöfunar eru 10 milljónir króna. Styrkir geta numið að hámarki 75% af áætluðum heildarkostnaði verkefnis. Unnt er að sækja um bæði á íslensku og ensku.

Umsóknarfrestur er til og með 2. febrúar 2015. Vakin er sérstök athygli á að umsækjendum er gert að sækja um á rafrænu formi á eyðublaðavef Stjórnarráðsins (http://minarsidur.stjr.is).

Á vef velferðarráðuneytisins er að finna þingsályktunartillögu um framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í málefnum innflytjenda og reglur þróunarsjóðs innflytjendamála með nánari upplýsingum um skilyrði styrkveitinga. Trúnaðar er gætt við meðferð allra umsókna.

Nánari upplýsingar fást í velferðarráðuneytinu í síma 545 8100 og með tölvupósti á netfangið [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta