Hoppa yfir valmynd
31. desember 2014 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Sigrún Magnúsdóttir tekur við embætti umhverfis- og auðlindaráðherra

Sigrún Magnúsdóttir

Sigrún Magnúsdóttir tók við embætti umhverfis- og auðlindaráðherra á ríkisráðsfundi í dag, gamlársdag.

Sigrún var kosin alþingismaður fyrir Framsóknarflokkinn í Reykjavíkurkjördæmi norður þann 27. apríl 2013.

Hún er fædd 15. júní 1944. Eiginmaður hennar er Páll Pétursson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, og alls eiga þau fimm uppkomin börn. Sigrún lauk kvennaskólaprófi og landsprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík 1961, prófi frá Húsmæðraskóla Reykjavíkur 1962 og stundaði nám við öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð 1974-1976. Þá lauk hún BA-prófi í þjóðfræði og borgarfræðum frá Háskóla Íslands árið 2006.

Sigrún á að baki farsælan feril í stjórnmálum auk þess að búa að víðtækri reynslu úr atvinnulífinu.  Sigrún hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir ríki og borg og sat í borgarstjórn Reykjavíkur í 16 ár, m.a. sem formaður borgarráðs í 6 ár og formaður borgarstjórnarhóps Reykjavíkurlistans frá 1994 til 2002. Hún hefur setið í stjórnum margra fyrirtækja og stofnana borgarinnar og leitt mikilvæg verkefni, t.d. á sviði mennta- og fræðslumála.  Sigrún var kjörin á þing vorið 2013 og  hefur setið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og verið formaður Þingvallanefndar auk þess að gegna embætti þingflokksformanns.

Sigrún tekur við lyklum að umhverfis- og auðlindaráðuneytinu næstkomandi föstudag, 2. janúar 2015 úr höndum Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta