Hoppa yfir valmynd
9. janúar 2015 Dómsmálaráðuneytið

Rannsakaði viðhorf fagaðila sem starfa við meðferð nauðgunarmála

Viðhorf og reynsla fagaðila sem starfa við meðferð nauðgunarmála innan réttarvörslukerfisins var efni rannsóknar sem unnin var á vegum Eddu-öndvegisseturs við Háskóla Íslands í samstarfi við innanríkisráðuneytið. Markmið rannsóknarinnar var að kanna viðhorf og reynslu fagaðila og hvort og þá hvernig breytinga sé þörf. Niðurstöður rannsóknarinnar hafa verið kynntar innanríkisráðherra.

Rannsóknina vann Hildur Fjóla Antonsdóttir, mann- og kynjafræðingur, og er hún seinni hluti rannsóknar um einkenni og meðferð nauðgunarmála sem Hildur vann ásamt Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur. Tekin voru viðtöl við 26 manns, sérfræðinga á sviði heilbrigðis- og félagsmála sem gefa álit fyrir dómi, rannsóknarlögreglumenn, réttargæslumenn og verjendur, ákærendur og dómara.

Í viðtölunum komu fram vísbendingar um að standa mætti betur að meðferð nauðgunarmála innan réttarvörslukerfisins og voru helstu ágallar taldir þessir:

  • Of margir þolendur nauðgana kæra ekki brotin
  • Misvel er staðið að rannsókn nauðgunar- og kynferðisbrotamála
  • Ríkissaksóknari hefur ekki tök á að sinna eftirlitsskyldum og fræðsluhlutverki sem skyldi
  • Ákveðnir hópar sakborninga virðast vera í verri stöðu en aðrir gagnvart réttarvörslukerfinu
  • Misvel er staðið að réttargæslu í nauðgunarmálum
  • Sálfræðingar eru misvel í stakk búnir til að meta afleiðingar nauðgunarbrota fyrir dómi
  • Skortur á tækifærum til símenntunar og lágmarks sérhæfingu á meðal dómara
  • Lágt ákæruhlutfall í nauðgunarmálum
  • Erfið sönnunarstaða í nauðgunarmálum innan refsiréttar
  • Opinber umræða um brotaflokkinn oft á villigötum

Í lokaorðum skýrslunnar segir að vonast sé til að niðurstöður og úrbótatillögur verði kannaðar gaumgæfilega og eftir atvikum þróaðar og nýttar. Tillögurnar eru eftirfarandi:

  • Að auka líkur á að nauðgunarbrot séu kærð með því að tryggja aðkomu réttargæslumanna eins fljótt og hægt er
  • Að efla menntun og þjálfun lögreglumanna sem rannsaka nauðgunar- og kynferðisbrotamál
  • Að tryggja embætti ríkissaksóknara nægilegt fjármagn til að sinna eftirlitsskyldu sinni og fræðsluhlutverki
  • Að kanna hvað veldur því að ,,venjulegir menn“ eru meirihluti sakborninga í málum sem tilkynnt eru lögreglu
  • Að tryggja sálfræðivottorð um afleiðingar brots fyrir brotaþola
  • Að auka símenntunartækifæri dómara
  • Að kanna hvort breytt löggjöf gæti lét róðurinn við sönnunarfærslu í málunum
  • Að kynna einkamálaleiðina fyrir brotaþolum og rýmka gjafsóknarreglur fyrir brotaþola sem vilja sækja rétt sinn innan skaðabótaréttar

Niðurstöður rannsóknarinnar hafa verið kynntar Ólöfu Nordal innanríkisráðherra og mun hún í kjölfarið fara yfir þær og meta tillögurnar til úrbóta sem þar koma fram.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta