Hoppa yfir valmynd
22. janúar 2015 Innviðaráðuneytið

Skýrsla OECD um samkeppnishæfni hafnaborga

Komin er út skýrsla á vegum OECD, Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu, um samkeppnishæfni hafnaborga. Fjallað er um áhrif hafna á borgir, stefnumótun og hvernig má auka jákvæð áhrif hafna á umhverfið og milda neikvæð áhrif. Talið er að auka megi hag borga af hafnastarfsemi meðal annars með því að stofna klasa um hafaþjónustu og ýta undir að iðfyrirtæki séu sem næst höfnum.

Skýrslan er fáanleg í gegnum vef OECD. Hér á eftir fer útdráttur um nokkur helstu umfjöllunarefni skýrslunnar:

The Competetiveness of Global Port-Cities

OECD (2014), The Competitiveness of Global Port-Cities, OECD Publishing.

Alheimsvæðingin er eitt af aðal einkennum okkar tíma og skapar efnahagslegan vöxt og hefur áhrif á lífsgæði. Hafnir leika þar lykilhlutverk en um 90% af öllum vöruflutningi fer um hafnir. Margar hafnir eru í borgum og afkoma beggja því samtvinnuð að einhverju marki. Sumar hafnaborgir hafa náð að nýta hafnir sínar til að hafa af þeim efnahagslegan ávinning. Öðrum borgum hnignar þrátt fyrir að hafnirnar blómstri. Í sögunni er fjöldi dæma þar sem borgir hafa vaxið og dafnað vegna hafnanna. Spurningin er hvort það geti gerst einnig í dag; hvort hafnir geti orðið efnahagslegur drifkraftur fyrir þéttbýlissvæði. Lítið er vitað og lítil yfirsýn er um hvernig á að reka hafnir þannig að árangur náist svo sem hvernig eigi að standa að stefnumótun. Hafnir hafa í för með sér sérstakar aðstæður sem bregðast þarf við svo sem í tengslum við landnotkun og umhverfismál. Hafnir hafa mótað stefnu hver með sínum hætti. Spurningin er því hvaða leiðir hafa þær borgir valið sem hafa náð árangri og hvað má læra af reynslunni. Í þessari skýrslu er veitt innsýn í þetta efni auk atriða eins og áhrif hafna á hafnaborgir, stefnumótun til að gera hafnir samkeppnishæfari og hvernig á að auka jákvæð staðbundin áhrif hafna og milda neikvæð áhrif þeirra.

Skýrslan er meira en 270 blaðsíður að lengd með töflum, viðaukum og meginmáli. Henni er skipt í sex kafla og er efni þeirra í grófum dráttum:

  1. Tenging hafna og borga. Hvernig tengsl milli vaxtar borga og hafna hafa orðið veikari. Hvernig hver höfn og hafnarborg búa við sérstakar aðstæður.
  2. Kostir og gallar við hafnir og samanburður á þessu tvennu.
  3. Hvernig gera á hafnir samkeppnishæfar; tengingar við samgöngur á sjó, mælingar á skilvirkri hafnastarfsemi, að þróa sterk tengsl við upplönd hafna og að tryggja jákvætt viðhorf íbúa.
  4. Hvernig má auka jákvæð staðbundin áhrif hafna; hafnaklasar, þróun iðnaðar við hafnir, þróunarstarf á mörkum lands og sjávar með þátttöku hafna, fjölbreytileiki tengdur því að hafnir séu í borgum, samstarf við nálægar hafnaborgir.
  5. Hvernig milda má neikvæð áhrif hafna með því að draga úr áhrifum á umhverfi, landnotkun, draga úr umferðateppum í hafnaborgum, loftslagsaðlögun í höfnum og aðgerðir til að auka öryggi.
  6. Árangursrík stefnumótun fyrir hafnaborgir. Hvað ræður samkeppnishæfni hafna, samlegðaráhrif hafna og borga, að auka staðbundin áhrif hafna á efnahag, að draga úr neikvæðum áhrifum, að meta áhrif stefnu og fleira.

Þá eru í skýrslunni lýsingar á aðstæðum í 31 höfn í 24 löndum.

Tengslin milli hagsældar hafna og borga hafa veikst frá því sem áður var. Efnahagslegur ábati af rekstri hafna dreifist oft til annarra svæða en þar sem höfnin sjálf er en neikvæð áhrif eru staðbundin. Viðfangsefni skýrslunnar er hvernig draga mætti úr neikvæðum áhrifum hafna og auka áhrif hafna á hagsæld borga.

Vel rekin höfn hefur í för með sér margs konar ábata. Nefna má lægri kostnað við viðskipti, meiri virðisauka og meiri atvinnu auk þess að draga til sín margs konar starfsemi. Sem dæmi má nefna að eins tonns aukning í flutningum um hafnir hefur verið talin hafa í för með sér virðisauka upp á um 100 bandaríkjadali. Aukning um sem nemur einni milljón tonna hefur verið talin auka atvinnu um sem nemur 330 störfum til skemmri tíma litið. Þessu til viðbótar eiga hafnir mikinn þátt í nýsköpun á ýmsum sviðum tengdum hafnamálum og siglingum. Margir jákvæðir fylgifiskar hafnastarfsemi koma hins vegar niður á öðrum svæðum en hafnasvæðinu sjálfu. Hafnir eru gáttir og jákvæð áhrif vel rekinnar hafnar eru víða. Sem dæmi má nefna að samskipti og samningar þeirra sem sem flytja og þeirra sem láta flytja geta verið gerðir fjarri höfn. Því stærra hlutverk sem höfnin leikur í heildar hagkerfinu því meira dreifast áhrifin.

Neikvæð áhrif hafna, sem aðallega eru umhverfisleg, tengjast notkun lands og umferð í tengslum við flutninga um höfnina. Losun gróðurhúsalofttegunda frá siglingum hefur áhrif hvar sem er en áhrif eins og hávaði, ryk, önnur loftmengun, vatnsgæði, umferðarteppur og landnotkun eru bundin við hafnasvæðið og nágrenni. Það er sem sagt ójafnvægi milli þess hvernig jákvæðir og neikvæðir fylgifiskar hafna dreifast og það er einmitt það sem leiðtogar hafnarborga þurfa að takast á við.

Hafnir verða að vera samkeppnishæfar eigi hafnaborgir að hafa af þeim hag. Virðisauki af hafnastarfsemi og atvinnu í tengslum við þær er sterklega tengdur hagsæld í borgum. Hafnir geta aukið samkeppnishæfni sína með því að bæta tengsl sín við siglingar, bæta eigin starfsemi og bæta tengsl við upplönd sín geta. Jákvætt viðhorf almennings til hafna skiptir máli og það geta hafnir áunnið sér. Stefna í umhverfismálum og hvatakerfi hafa dregið úr neikvæðum áhrifum á umhverfi, stefna í flutningamálum við hafnir hefur mildað umferðarteppur og flutningur hafna hefur losað land fyrir annars konar starfsemi.

Grundvallaratriðið fyrir hafnir er hvernig hægt sé að fá meiri verðmæti til hafnastaðanna sjálfra frá hafnastarfseminni. Í þeim efnum eru til þrjár aðferðir sem hægt er að nota til að auka hag borganna af starfseminni: Í fyrsta lagi klasar um hafnaþjónustu en slík starfsemi dregur til sín fjármögnunarfyrirtæki, ráðgjafaþjónustu og verkfræðifyrirtæki. Í öðru lagi þróun iðnaðar sem best á heima sem næst þeim stöðum þar sem aðföng berast og afurðir eru fluttar frá á markaði. Í þriðja lagi þróun hafnastarfsemi. Þessi atriði og útfærsla þeirra þarf að skoðast frá styrkleikum hvers staðar, hvernig standa eigi að þróuninni og hvaða iðnað og stuðningsstarfsemi eigi og þurfi að laða að. Mælt er með nokkrum aðferðum til að ná því markmiði að bæta hag hafna og nágrennis þeirra. Þar má nefna hvatakerfi, þjálfun og menntun, fyrirtæki sem finna, tengja og styðja fyrirtæki og starfsemi sem hagnast höfnum og nágrenni þeirra auk áætlana til að kynna málefnið og laða að fyrirtæki sem gefa mikinn virðisauka og geta gert borg að alþjóðlegri þjónustumiðstöð fyrir siglingar.

Auk þess að fara að alþjóðlegum reglum um að draga úr umhverfisáhrifum siglinga ættu hafnir að setja sér reglur um að draga úr umhverfisáhrifum og heilsuspillandi áhrifum hafna. Slíkt mætti gera með því að reikna með umhverfiskostnaði við rekstur hafna sem og að láta þá sem menga greiða sérstaklega. Hvetja ætti til notkunar umhverfisvænna skipa. Áhrif hafna á umferð innan borga ætti að milda með betra skipulagi og stefnumótun, hvata til að dreifa umferðarálagi hvers dags svo sem aðgangsgjald að hafnarsvæði og gjald á umferðarþyngstu staðina.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta