Samningaviðræður um niðurfellingu tolla í verslun með umhverfisvörur
Utanríkisráðuneytið hvetur fyrirtæki til að koma upplýsingum á framfæri um viðskiptahagsmuni með umhverfisvörur vegna marghliða samningaviðræðna um niðurfellingu tolla í verslun með umhverfisvörur.
Ráðuneytið fer með gerð alþjóðlegra viðskiptasamninga fyrir hönd íslenskra stjórnvalda og vinnur nú að undirbúningi fyrir þátttöku í marghliða viðræðum um niðurfellingu tolla í verslun með umhverfisvörur. Undir umhverfisvörur flokkast vörur sem stuðla að aukinni umhverfisvernd og styðja við markmið sjálfbærrar þróunar. Aukið frjálsræði í viðskiptum og fjárfestingum með umhverfisvörur er talið auðvelda fyrirtækjum og einstaklingum aðgengi að tækni og vörum sem draga úr óæskilegum áhrifum á umhverfi og heilsu, m.a. með lægri tilkostnaði.
Síðast liðið sumar hófust viðræður um viðskipti með umhverfisvörur með þátttöku 14 ríkja og ríkjahópa en þeirra á meðal eru Evrópusambandið, Bandaríkin, Kína, Japan, Kanada, Noregur og Sviss. Í viðræðunum er horft til eftirfarandi efnisflokka:
· Loftmengun (Air pollution control)
· Meðferð hættulegra spilliefna (Hazardous waste management)
· Fráveitur (Wastewater management and water treatment)
· Endurheimt (Environmental remediation and clean-up)
· Hávaðamengun (Noise and vibration abatement)
· Endurnýjanlegir orkugjafar og orkunýtni (Cleaner and renewable enery, energy efficiency)
· Umhverfisvakt (Environmental monitoring, analysis and assesment)
· Umhverfisvænar vörur (Enviornemntally-preferable products)
· Betri nýtingu (Resource efficiency)
Listi yfir vörur sem geta talist til ofangreindra efnisflokka.
Utanríkisráðuneytið hvetur fyrirtæki og einstaklinga eindregið til að koma á framfæri við ráðuneytið upplýsingum um viðskiptahagsmuni með umhverfisvörur skv. skilgreiningu hér að ofan (tollskrárnúmer vöru) sem óskað er eftir að lögð verði áhersla á í viðræðunum. Ef fyrirtæki koma sjónarmiðum sínum á framfæri tímanlega getur íslenska samninganefndin haft þau að leiðarljósi við gerð samningsins.
Hægt er að koma ábendingum á framfæri við Ingibjörgu Rafnar Pétursdóttur á viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins í s. 545-9936 og á netfangið irp(hjá)mfa.is