Hoppa yfir valmynd
26. janúar 2015 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

OECD skýrslu um umhverfismál fylgt eftir

Frá kynningu OECD á skýrslunni í september sl.

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skipað starfshóp til að yfirfara og meta ráðleggingar sem fram koma í nýlegri heildarúttekt OECD á stöðu og þróun umhverfismála á Íslandi 2001-2013.

Skýrslan er yfirgripsmikil úttekt á framkvæmd umhverfismála á Íslandi og eru þar settar fram margar ábendingar og ráðleggingar til íslenskra stjórnvalda, sem snúa m.a. að löggjöf, innviðum, hagrænum stjórntækjum og fleiri grunnþáttum varðandi framþróun málaflokksins.

Starfshópurinn mun skoða þessar ráðleggingar OECD með tilliti til framkvæmdar og eftirfylgni. 

Í skýrslunni er bent á styrkleika og áskoranir í umhverfismálum Íslendinga og er sjónum sérstaklega beint að umhverfi og ferðaþjónustu og umhverfi  og orkumálum. Þetta er þriðja úttektarskýrsla OECD á umhverfismálum hér á landi, en að jafnaði er um áratugur milli umhverfisúttekta stofnunarinnar á aðildarríkjum sínum.  

Í starfshópnum sitja Jón Geir Pétursson, formaður fyrir hönd umhverfis- og auðlindaráðuneytis. Aðrir fulltrúar eru Ásta Þorleifsdóttir, tilnefnd af innanríkisráðuneyti, Brynhildur Benediktsdóttir, tilnefnd af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Guðrún Þórdís Guðmundsdóttir, tilnefnd af fjármála- og efnahagsráðuneyti, Héðinn Unnsteinsson, tilnefndur af forsætisráðuneyti og Hreinn Hrafnkelsson, tilnefndur af iðnaðar- og viðskiptaráðherra. 

Hermann Sveinbjörnsson, sérfræðingur í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu mun einnig starfa með starfshópnum. 

 Miðað er við að starfshópurinn skili stöðuskýrslu fyrir 1. júní 2015.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta