Hoppa yfir valmynd
27. janúar 2015 Utanríkisráðuneytið

Metnaðarmál að Ísland taki virkan þátt í starfi SÞ

Gunnar Bragi í Háskóla Íslands

Það er metnaðarmál að Ísland taki virkan þátt í starfi Sameinuðu þjóðanna og eru framlög Íslands til þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar SÞ lykilþáttur utanríkisstefnunnar. Þetta kom fram í ávarpi Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra á hátíðarsamkomu í Háskóla Íslands í dag í tilefni af 70 ára afmæli Sameinuðu þjóðanna og ári ljóssins 2015.

Í sáttmála SÞ segir að aðildarríkin ætli að bjarga komandi kynslóðum undan hörmungum ófriðar og staðfesta að nýju trú á grundvallarréttindi manna, virðingu þeirra og gildi, jafnrétti karla og kvenna og allra þjóða. „Þetta eru háleit markmið og stundum virðist veruleikinn fjarri þeim. Áskoranirnar eru margar og flóknar eins og við lesum, sjáum og heyrum í fréttum og á samfélagsmiðlum dag hvern,“ sagði Gunnar Bragi. Hann sagði það mikilvæga áminningu að í dag eru liðin 70 ár frá því að fangarnir í Auschwitz útrýmingarbúðunum voru frelsaðir.

Utanríkisráðherra lagði áherslu á að til að SÞ nái sem bestum árangri sé mikilvægt að öll aðildarríki leggi sitt af mörkum til málefna þar sem hvert og eitt þeirra getur stuðlað að vandaðri og upplýstri umfjöllun á grundvelli eigin þekkingar og reynslu. Á meðal þeirra stóru verkefna sem aðildarþjóðir SÞ standi frammi fyrir er mótun nýrra þróunarmarkmiða, þar sem Ísland leggur áherslu á málefni hafsins, landgræðslu, jafnréttismál og orkumál. Annað risavaxið verkefni er gerð nýs alþjóðasamkomulags um loftslagsmál sem samið verður um á ríkjaráðstefnu í París í desember.

Þá sagði ráðherra mikilvægt að ríki SÞ setji aukinn kraft í baráttuna fyrir kynjajafnrétti og minnti á nýlegt framlag Íslands til þess; Rakarastofuráðstefnuna svonefndu, sem var haldin í höfuðstöðvum SÞ um miðjan mánuðinn, en hún vakti mikla athygli.

Ávarp utanríkisráðherra í tilefni 70 ára afmælis SÞ

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta